Vikan framundan
- Á mánudaginn birta Reitir ársfjórðungsuppgjör.
- Á þriðjudaginn birtir Þjóðskrá vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem Iceland Seafood birtir ársfjórðungsuppgjör.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð Peningastefnunefndar og vísitala leiguverðs verður birt.
Mynd vikunnar
Mikil umferð var um Keflavíkurflugvöll í apríl, en alls fóru um 103 þúsund erlendir farþegar um flugvöllinn og 58 þúsund Íslendingar samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Um er að ræða fjórða fjölmennasta aprílmánuð frá því mælingar hófust en brottfarir erlendra farþega í apríl nú eru um 8 þúsund fleiri en í apríl 2016. Frá áramótum hafa 347 þúsund erlendir farþegar farið frá Keflavíkurflugvelli. Þó er enn langt í land að ná þeim fjölda sem var fyrir Covid-faraldurinn en á sama tímabili árið 2019 höfðu 578 þúsund erlendir farþegar flogið frá Keflavíkurflugvelli.
Efnahagsmál
- Skráð atvinnuleysi í apríl var 4,5% og dróst saman milli mánaða, úr 4,9% í mars. Alls voru 9.076 atvinnulausir í lok apríl, 5.051 karlar og 4.025 konur, en atvinnuleysi mælist lægra nú en fyrir faraldurinn. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni minnka í maí og verða á bilinu 4,0% til 4,3%.
- Ferðamálastofa birti talningu á fjölda erlends ferðafólks um Keflavíkurflugvöll í apríl, en samkvæmt talningunni töldu brottfarir erlendra farþega í apríl um 103 þúsund.
- Heildarvelta innlendra greiðslukorta jókst um 4,8% á milli mánaða sem skiptist þannig að velta debetkorta nam 45,0 mö.kr. og velta kreditkorta nam 57,1 ma.kr.
- Við spáum tæplega 0,8% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) milli apríl og maí, gangi spáin eftir fer 12 mánaða verðbólga úr 7,2% í 7,6%.
Fjármálamarkaðir
- Sýn, Kvika banki og Eimskip birtu árshlutauppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung.
- PLAY birti flutningstölur fyrir apríl.
- Lánamál ríkisins gáfu út markaðsupplýsingar í maí.
- Íslandsbanki lauk útboði sértryggðra skuldabréfa.