Vikubyrjun 14. ágúst 2023
Vikan fram undan
- Í dag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi.
- Á þriðjudag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og Eimskip birtir uppgjör.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn niðurstöður úr væntingakönnun markaðsaðila og tölur um greiðslumiðlun. SKEL fjárfestingafélag birtir uppgjör.
- Á fimmtudag birtir Kvika banki uppgjör.
Mynd vikunnar
Brottfarir erlendra ferðamanna á fyrstu sjö mánuðum ársins voru 1.230 þúsund. Brottfarir hafa aðeins einu sinni verið fleiri á fyrstu sjö mánuðum árs, en það var árið 2018 þegar 1.310 þúsund erlendir ferðamenn komu til landsins á sama tímabili. Alls voru ferðamenn 2,3 milljónir árið 2018 og þeir gætu vel orðið nálægt þeim fjölda í ár.
Það helsta frá vikunni sem leið
275 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í júlí. Erlendir ferðamenn hafa aðeins einu sinni verið fleiri í júlímánuði, á metferðamannaárinu 2018 þegar þeir voru tæplega 279 þúsund. Eins og síðustu 12 ár eru Bandaríkjamenn fjölmennasti ferðamannahópurinn í júlí, rétt yfir 40% allra erlendra ferðamanna. Brottfarir Íslendinga voru tæplega 71 þúsund talsins í júlí, fleiri en nokkurn tímann í júlímánuði.
Alls voru 6.230 laus störf á öðrum ársfjórðungi samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar, en til samanburðar voru þau 8.140 á fyrsta ársfjórðungi. Þar af voru 800 laus störf í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 1.300 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, en eftirspurn eftir starfsfólki hefur verið mest í þeim greinum upp á síðkastið.
Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 3,2% í júlí sem er 0,2 prósentustigum meira en í júní þegar hún mældist 3,0%. Talan var í samræmi við væntingar. Aukning á ársverðbólgu milli mánaða bendir ekki til þess að verðbólga þar í landi sé að taka aftur við sér, heldur skýrist hún af því að júlítalan í fyrra, sem nú dettur út úr ársverðbólgunni, var lág. Flestir erlendir greinendur telja nýjustu verðbólgutöluna auka líkur á að Seðlabanki Bandaríkjanna haldi vöxtum óbreyttum í september.
Icelandair og Play birtu flutningstölur fyrir júlí.
Lánasjóður sveitarfélaga og Lánamál ríkisins héldu skuldabréfaútboð.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Vikubyrjun 14. ágúst 2023 (PDF)