Leiguverð heldur áfram að þróast með rólegasta móti og hefur nánast staðið í stað frá því að veirufaraldurinn hófst, eða aðeins hækkað um 1,9% síðan í janúar 2020. Faraldurinn hefur haft talsverð áhrif á eftirspurn eftir húsnæði til kaupa. Vextir á íbúðalánum lækkuðu í kjölfar stýrivaxtalækkana Seðlabankans og þar með kaupgeta margra. Hlutfall fyrstu kaupenda jókst og hefur aldrei mælst hærra. Við slíkar aðstæður dregst eftirspurn eftir leiguhúsnæði saman. Það, ásamt fækkun ferðamanna, og þar með útleiga íbúða til þeirra, gerði það að verkum að spenna dróst verulega saman á leigumarkaði.
Nýjustu gögn Þjóðskrár um leiguverð eiga við þinglýsta samninga á höfuðborgarsvæðinu í nóvember þar sem leiguverð hækkaði um 1,2% milli mánaða. Þetta er talsvert meiri hækkun en á síðustu mánuðum, í október stóð verðið í stað og í september lækkaði það örlítið. 12 mánaða hækkun leiguverðs mælist afar hófleg, eða einungis 3,4% á sama tíma og kaupverð íbúða í fjölbýli hefur hækkað um 16%. Til samanburðar hefur vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkað um 3,0%. Raunhækkun leigu, þ.e. hækkun á leigu umfram annað verðlag, mælist því innan við hálft prósentustig, sem hefur einkennt stöðuna núna fjóra mánuði í röð. Það má því segja að stöðugleiki ríki á leigumarkaði þar sem leiga þróist í takt við annað verðlag, ólíkt því sem hefur sést á íbúðamarkaði undanfarið.