Verðbólgan lækkaði í 6,0%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,55% milli mánaða í apríl, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkar því úr 6,8% í 6,0%, um 0,6 prósentustig. Verðbólga hjaðnaði örlítið meira en við gerðum ráð fyrir, en við spáðum 0,61% hækkun milli mánaða og að ársverðbólgan færi í 6,1%. Þetta er síðasta mæling fyrir næstu vaxtaákvörðun, en hún verður birt miðvikudaginn 8. maí, eftir tvær vikur.
Reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda skýra 95% af hækkuninni
Í þetta sinn voru það tveir liðir sem höfðu langmest áhrif, reiknuð húsaleiga sem hækkaði um 1,7% (0,32% áhrif) og flugfargjöld til útlanda sem hækkuðu um 11,3% (0,20% áhrif). Alls skýra þessir tveir undirliðir 0,52 prósentustig af 0,55% hækkuninni, eða 95%.
Helstu liðir vísitölunnar:
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 1,7% (0,32% áhrif). Þetta var mun meiri hækkun en við bjuggumst við en við spáðum 1,1% (0,20% áhrif). Mestu munar um að markaðsverð húsnæðis hækkaði mun meira en við spáðum, eða um 1,2% í stað 0,6%. Hún hækkaði meira en vísitala íbúðaverðs sem HMS mælir sem hækkaði um 0,8% milli mánaða. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,9%, sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,6% og húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins um 2,1% samkvæmt mælingum Hagstofunnar.
- Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,1% (0,02% áhrif), sem er mun hóflegri hækkun en við höfðum spáð.
- Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 11,3% (0,20% áhrif) sem er mjög svipað og við bjuggumst við. Þótt flugfargjöld hafi hækkað milli mánaða er nú 11% ódýrara að fljúga til útlanda en á sama tíma í fyrra.
- Liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður og fl. lækkuðu óvænt um 0,8% (-0,04% áhrif). Þar munar mestu um að borðbúnaður, glös, eldhús- og heimilisáhöld lækkuðu um 2,1% og sængurfatnaður, handklæði o.fl. lækkaði um 2,0%. Hér gætu tilboðsdagar eða afslættir í verðkönnunarvikunni hafa spilað inn í.
Hjöðnun ársverðbólgu á nokkuð breiðum grunni
Ef við skoðum samsetningu verðbólgunnar sést að framlag allra helstu undirflokka nema bensíns lækkaði í apríl. Mesta breytingin fólst í því að framlag húsnæðis lækkaði um 0,3 prósentustig og einnig framlag innfluttra vara án bensíns, framlag innlendra vara lækkaði um 0,2 prósentustig og framlag þjónustu lækkaði um 0,1 prósentustig. Framlag bensíns jókst hins vegar um 0,1 prósentustig. Það verður að teljast jákvætt að hjöðnun verðbólgunnar sé á breiðum grunni, enda kann það að þýða að tekið sé að draga úr undirliggjandi verðbólguþrýstingi.
Spáum verðbólgu í kringum 6% næstu þrjá mánuði
Við spáum því nú að vísitala neysluverðs hækki um 0,46% í maí, 0,62% í júní og 0,05% í júlí. Gangi spáin eftir mælist verðbólga 6,1% maí, 5,9% í júní og 5,9% í júlí. Spáin fyrir þessa þrjá mánuði er óbreytt frá síðustu spá sem við birtum í verðkönnunarvikunni enda kom talan í morgun ekki mikið á óvart. Þar sem húsnæðisverð hækkaði umfram væntingar okkar í apríl hækkum við lítillega spá um húsnæðisliðinn í maí.