Verðbólga heldur áfram að hjaðna
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% milli mánaða í september samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Mest áhrif til hækkunar höfðu föt og skór (+4,6% milli mánaða, 0,15% áhrif) og húsgögn og heimilisbúnaður (+2,2% milli mánaða, +0,14% áhrif). Mest áhrif til lækkunar höfðu flugfargjöld til útlanda (-17,9% milli mánaða, -0,42% áhrif).
Verðbólga náði hámarki í júlí
Þetta er annar mánuðurinn í röð sem verðbólgan lækkar milli mánaða. Alls hefur verðbólga minnkað um 0,6% prósentustig síðan hún mældist mest 9,9% í júlí. Lækkunin frá júlí skýrist af því að framlag bensíns, húsnæðis, og þjónustu hefur dregist saman, en framlag innfluttra vara án bensíns og innlendra vara hefur aukist. Þetta er í fyrsta sinn síðan í febrúar á síðasta ári sem að framlag húsnæðis til 12 mánaða verðbólgu lækkar milli mánaða.
Nokkurn veginn í takt við væntingar
Þetta var ögn minni hækkun en við áttum von á, en við bjuggumst við 0,14% hækkun milli mánaða. Spáskekkjan er þó lítil og má því segja að mælingin sé í takt við væntingar. Þrátt fyrir það var ýmislegt sem kom okkur á óvart í tölunum.
Áttum von á minni lækkun á flugfargjöldum
Flugfargjöld til útlanda lækkuðu mun meira milli mánaða en við áttum von á. Alls lækkuðu þau um 18% milli mánaða, en við áttum von á 7% lækkun. Líklega má rekja þetta til lækkunar á verði flugvélaeldsneytis á heimsmarkaði að einhverju leyti. Þrátt fyrir þetta er um 17% dýrara að fljúga til útlanda í september í ár en í september 2019, árið áður en heimsfaraldurinn olli því að flugsamgöngur lögðust að miklu leyti niður. Þetta er minni munur en í sumar, en í júlí og ágúst var um 30% dýrara að fljúga til útlanda en í sömu mánuðum árið 2019.
Matvara hækkar ekki jafn hratt og spáð var
Við áttum von á að matarkarfan myndi hækka meira í verði en raunin varð. Hún hækkaði um 0,3% milli mánaða en við höfðum spáð 1,2% hækkun. Verðlagsnefnd búvara hækkaði nýlega lágmarksverð mjólkur til bænda og heildsöluverð mjólkur og mjólkurafurða. Áhrif þess á verðlag var svipað og við áttum von á. Það sem kom hins vegar á óvart var að heildaráhrif hinna liðanna í matarkörfunni voru í raun engin, en mjólk og mjólkurafurðir skýra alla hækkun á matarkörfunni, sem mælist nú 8,4% dýrari en fyrir ári síðan.
Þá spáðum við því að reiknuð húsaleiga myndi lækka milli mánaða, en hún hélst var nokkurn veginn óbreytt. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu óbreytt milli mánaða, verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1% og íbúðahúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins lækkaði í verði um 0,9%. Mæling Hagstofunnar á sérbýli kom mikið á óvart, en nýjasta mæling vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýndi verulega lækkun milli mánaða á sérbýli.
Af öðrum liðum hækkaði verð á fötum og skóm vegna útsöluloka og húsgögnum og heimilisbúnaði vegna verðhækkana á raftækjum.
Verðbólguhorfur batna
Septembermæling vísitölu neysluverðs rennir frekari stoðum undir þá skoðun okkar að verðbólga hafi náð hámarki í júlí og haldi áfram að hjaðna næstu mánuði. Við eigum nú von á að verðbólga verði 8,2% í lok árs. Að okkar mati hafa verðbólguhorfur því batnað nokkuð. Þegar við birtum verðbólguspá í verðkönnunarvikunni (15. september) áttum við von á að verðbólgan undir lok árs yrði 8,8%.
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnir um vaxtaákvörðun í næstu viku. Þetta er því nýjasta mæling á verðbólgu sem nefndin mun hafa til hliðsjónar. Þessi mæling eykur líkurnar á að nefndin taki minni skref í vaxtahækkunum en verið hefur. Seðlabankinn spáði því að verðbólga yrði 10,2% á þriðja fjórðungi en raunin varð 9,7%. Þetta er í fyrsta sinn síðan á fjórða ársfjórðungi 2020 sem Seðlabankinn ofspáir verðbólgu fyrir þann fjórðung sem stendur yfir þegar spáin er gerð.