Uppbygging utan höfuðborgarsvæðisins ekki meiri síðan 2008

Samkvæmt tölum Hagstofunnar virðist íbúðaverð þróast með svipuðu móti á höfuðborgarsvæðinu og utan þess, íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins hefur þó hækkað enn hraðar en innan þess. Vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hefur hækkað um 22% í tilviki sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu og fjölbýli um 24% síðan í júlí í fyrra. 12 mánaða breyting vísitölunnar utan höfuðborgarsvæðisins hefur hins vegar verið meiri, eða um 29%. Ef miðað er við febrúar 2020, fyrir faraldurinn, er hækkunin nokkuð svipuð eða frá 45%-47% hvort sem litið er á sérbýli eða fjölbýli, utan höfuðborgarsvæðisins eða innan þess.
Í lok júlí 2022 voru samtals 2.672 íbúðir í byggingu utan höfuðborgarsvæðisins og hafa þær ekki verið fleiri síðan 2008. Skiptingin á milli fjölbýlis og sérbýlis er nokkuð jöfn. Það sem af er ári hefur íbúðum í byggingu fjölgað um 12% en þeim hafði fjölgað um rúm 33% á milli áramóta 2020 og 2021. Á árunum 2009-2016 komu hlutfallslega fáar íbúðir inn á markaðinn þó svo að mikið af íbúðum væru í byggingu. Ferlið virðist því vera orðið skilvirkara nú en áður og er því viðbúið að talsvert komi áfram inn af nýjum íbúðum á næstu misserum, enda mikil eftirspurn eftir íbúðum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Uppbygging utan höfuðborgarsvæðisins ekki meiri síðan 2008









