Stuðningsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins umsvifamiklar
Helstu stuðningsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins til handa fyrirtækjum og heimilum nema nú ríflega 95 mö.kr. frá því að þær hófust. Til samanburðar er áætlað að útgjöld ríkissjóðs til menntamála nemi um 86 mö.kr. á árinu 2021. Hlutabætur vegna atvinnuleysis vega þyngst af aðgerðunum, en næst kemur frestun skattgreiðslna, sem auðvitað er ekki bein útgjöld. Sé litið yfir tímaferilinn voru frestun skattgreiðslna, hlutabætur og greiðsla launa á uppsagnarfresti umfangsmestar fyrstu mánuðina, en síðustu mánuði hafa tekjufalls- og viðspyrnustyrkir verið áberandi.
Á þessu ári hafa rúmir 15 ma.kr. verið greiddir í tekjufalls- og viðspyrnustyrki, sem ætlað er að aðstoða rekstraraðila sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna faraldursins. Um 2,5 ma.kr. hafa verið greiddir í lokunarstyrki frá því faraldurinn skall á. Þá hafa landsmenn tekið út séreignarsparnað að upphæð 27 ma.kr., en heimild til þess gildir út árið. Þessum úttektum hafa fylgt töluverðar skatttekjur fyrir ríkissjóð en að sama skapi skerðast skatttekjur í framtíðinni.
Á tímabilinu hafa um 7,7 ma.kr. verið endurgreiddir af virðisaukaskatti vegna framkvæmda við húsnæði og bílaviðgerða.
Sjálfvirk viðbrögð ríkisfjármálanna hafa verið umfangsmikil, en í því felst t.d. að tekjur af tekjusköttum og tryggingagjaldi lækka og útgjöld vegna atvinnuleysis hækka miðað við breytt ástand. Í nýjum tillögum um fjármálaáætlun kemur fram að mótvægisaðgerðir stjórnvalda árin 2020 og 2021 nema um 200 mö.kr. á þessum tveimur árum, sem kemur til viðbótar áhrifum hinna sjálfvirku sveiflujafnara ríkisfjármálanna, en þau eru metin um 200 ma.kr. yfir sama tíma. Samanlagt umfang ráðstafana í ríkisfjármálum nam því 6,1% af landsframleiðslu í fyrra og verður um 7% í ár. Til samanburðar nema beinar ráðstafanir stjórnvalda í Bandaríkjunum, sem samþykktar voru í þinginu í desember í fyrra og mars á þessu ári, alls um 2.800 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 13,5% af landsframleiðslu. Umfang sjálfvirkra sveiflujafnara í ríkisfjármálunum er hins vegar mun minna í Bandaríkjunum en hér á landi.
Ríkisstjórnin kynnti áframhaldandi efnahagsaðgerðir vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar í lok apríl. Þar er um er að ræða fjórða aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar en áður voru samþykktir svipaðir pakkar í mars, apríl og nóvember í fyrra. Nú er komið fram frumvarp til fjáraukalaga til þess að samþykkja fjárheimildir vegna þessara aðgerða. Þetta er því annað árið í röð sem fjáraukalög verða samþykkt á fyrri hluta árs, sem er nokkuð einstakt. Umfang þessara tillagna er það mikið að ekki er unnt að fjármagna þær með öðrum úrræðum laga um opinber fjármál, og því þarf fjáraukalög til.
Stærstur hluti tillagnanna snýr að félags- og vinnumarkaðsmálum, eða um 11,6 ma.kr. Þar af nema aukin framlög vegna vinnumarkaðar og atvinnuleysis samtals 9,8 mö.kr.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Stuðningsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins umsvifamiklar