Athugun á gögnum í Verðsjá Þjóðskrár Íslands gefur til kynna að vel virðist ganga að selja nýjar íbúðir, en á fyrri hluta árs seldust alls 1.424 nýjar íbúðir sem eru 115% fleiri en seldust á sama tíma í fyrra, þegar þær voru 662 talsins. Af þeim nýju íbúðum sem seldust voru 1.263 í fjölbýli og 161 í sérbýli. Af einstaka hverfum seldust flestar nýjar íbúðir í vesturbæ Kópavogs, svæðinu sem m.a. Kársnesið tilheyrir, alls 174 íbúðir á fyrstu 6 mánuðum árs. Því næst seldust flestar nýbyggingar í Njarðvík þar sem 120 kaupsamningar voru undirritaðir á fyrri hluta árs, þar af 29 vegna nýrra eigna í sérbýli.
Nýjar íbúðir eru dýrastar í miðbæ Reykjavíkur, svæðinu sem nær frá Tjörninni og að Snorrabraut. Þar mældist meðalfermetraverð seldra nýbygginga tæplega 865.000 kr. á fyrri helmingi árs og hafði hækkað um 25% milli ára miðað við þær nýju íbúðir sem seldust á sama svæði á fyrri helmingi árs í fyrra. Annars staðar á höfuðborgarsvæðinu mælist fermetraverð nýrra íbúða á bilinu 540.000-700.000 kr., ódýrast í Mosfellsbæ og dýrast, á eftir miðbænum, í Linda- og Salahverfi Kópavogs.
Lægsta fermetraverð nýbygginga er að finna í Njarðvík. Þar seldist fermetrinn að jafnaði á um 430.000 kr. í nýju fjölbýli á fyrri hluta árs. Næstlægsta fermetraverðið er að finna á Selfossi, 445.000 kr. Hæsta fermetraverðið í nýbyggingu utan höfuðborgarsvæðisins var að finna í Keflavík, þar sem nýjar íbúðir í fjölbýli seldust á tæplega 490.000 kr. á hvern fermetra á fyrri hluta árs.
Lesa Hagsjána í heild









