Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,58% á milli mánaða í maí og við það hækkaði ársverðbólgan úr 6,0% í 6,2%, sem er örlítið meira en við höfðum spáð.
Spáum 0,47% hækkun í júní og að verðbólga lækki í 5,8%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,47% á milli mánaða nú í júní og að ársverðbólga lækki við það úr 6,2% í 5,8%. Samkvæmt spánni verða hækkanirnar aftur á nokkuð breiðum grunni þar sem margir liðir hækka lítið. Mest áhrif til hækkunar í spánni hafa reiknuð húsaleiga, hótel og veitingastaðir, flugfargjöld til útlanda og matarkarfan.
Ný aðferð við að reikna kostnað við búsetu í eigin húsnæði
Hagstofan mun nú í fyrsta sinn beita nýrri aðferð við mat á reiknaðri húsaleigu, svokallaðri aðferð húsaleiguígilda. Aðferðin byggir á því að markaðsleiga er notuð til þess að meta kostnað við búsetu í eigin húsnæði. Enn er óljóst hvaða áhrif þessi breyting mun hafa, en við gerum ráð fyrir að mælingar verði stöðugri og mánaðarsveiflur minni. Spár fyrir húsnæðisliðinn eru af þessum sökum háðar mikilli óvissu nú á meðan engin reynsla er komin á nýju aðferðina. Við gerum ráð fyrir því að liðurinn hækki um 0,6% á milli mánaða næstu mánuði.
Flugfargjöld til útlanda hækka og bensínverð lækkar
Almennt er nokkuð skýr árstíðarsveifla á flugfargjöldum til útlanda. Þau hækka aðeins í júní, hækka svo nokkuð meira í júlí og lækka í ágúst. Við spáum því að flugfargjöld hækki um 3,4% á milli mánaða (0,07% áhrif) nú í júní. Gangi spáin eftir verður 5% ódýrara að fljúga til útlanda í júní í ár en á sama tíma í fyrra. Samkvæmt verðkönnun okkar lækkar verð á bensíni og díselolíu um 0,6% á milli mánaða (-0,02% áhrif á vísitöluna).
Matarkarfan hækkar lítillega
Við gerum ráð fyrir að matarkarfan hækki um 0,4% (0,05% áhrif) núna í júní, en samkvæmt okkar verðkönnun var verð flestra matvara óbreytt á milli mánaða.
Spá um júnímælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 14,9% | 0,4% | 0,05% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,1% | 0,00% |
Föt og skór | 3,8% | 1,0% | 0,04% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,5% | 0,3% | 0,03% |
Reiknuð húsaleiga | 19,4% | 0,6% | 0,12% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 5,7% | 0,1% | 0,01% |
Heilsa | 4,0% | 0,3% | 0,01% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,8% | 0,4% | 0,02% |
Kaup ökutækja | 6,7% | 0,2% | 0,01% |
Bensín og díselolía | 3,3% | -0,6% | -0,02% |
Flugfargjöld til útlanda | 2,0% | 3,4% | 0,07% |
Póstur og sími | 1,7% | -0,4% | -0,01% |
Tómstundir og menning | 9,9% | 0,1% | 0,01% |
Menntun | 1,0% | 0,0% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,4% | 1,5% | 0,08% |
Aðrar vörur og þjónusta | 6,5% | 0,4% | 0,03% |
Alls | 100,0% | 0,44% |
Spáum takmörkuðum breytingum á ársverðbólgu næstu mánuði
Samkvæmt skammtímaspá okkar mun vísitalan hækka um 0,17% í júlí, 0,28% í ágúst og 0,26% í september. Gangi spáin eftir eykst verðbólga í júlí og verður 6,0%, en lækkar í 5,9% í ágúst og verður svo 5,8% í september. Við spáum því afar takmörkuðum breytingum á ársverðbólgu allra næstu mánuði.
Sem fyrr er óvissa í spánni. Helsta óvissan næstu mánuði tengist nýrri aðferðafræði við mat á reiknaðri húsaleigu. Í júlí hafa útsölur töluverð áhrif á verðbólgumælingar, bæði á fötum og skóm en einnig á húsgögnum og heimilisbúnaði. Hversu miklar þær útsölur eru á eftir að koma í ljós og þá sömuleiðis áhrifin á verðbólgu. Þá er einnig alltaf óvissa um þróun flugfargjalda, en liðurinn hefur töluverð áhrif á verðbólgumælingar.
Samkvæmt spánni hjaðnar verðbólgan nokkuð hægar á næstu mánuðum en hún gerði í upphafi árs. Gangi spáin eftir má jafnvel telja áhyggjuefni hversu hægt hún hjaðnar á meðan verulega dregur úr krafti í hagkerfinu, eins og sást skýrt í nýlegum þjóðhagsreikningum. Peningastefnunefnd hefur tilkynnt að ekki verði hægt að slaka á peningalegu aðhaldi fyrr en skýr merki eru komin fram um að verðbólga sé augljóslega á niðurleið. Í nýjustu þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir að vöxtum verði áfram haldið óbreyttum á ágústfundi peningastefnunefndar, en að þeir verði lækkaðir í október. Samkvæmt uppfærðri verðbólguspá er ekki útilokað að þeim verði haldið óbreyttum enn lengur en við höfum hingað til spáð.