Spáum lækkun verðbólgu úr 6,8% í 6,1%
Vísitalan hækkaði um 0,8% á milli mánaða í mars, en við höfðum spáð 0,57% hækkun. Það sem helst skýrði muninn á þeirri spá og mælingu Hagstofunnar var mun meiri hækkun á reiknaðri húsaleigu en við gerðum ráð fyrir. Sé hún tekin út fyrir sviga var mælingin í takt við okkar spá. Húsnæðisverð hækkaði nokkuð meira utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess og má líklega rekja hækkunina til eftirspurnaráhrifa vegna úrræðis ríkisins fyrir Grindvíkinga.
Spáum 0,61% hækkun í apríl og að verðbólga lækki í 6,1%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,61% á milli mánaða í apríl. Mest áhrif til hækkunar í spá okkar hafa reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda og matarkarfan. Gangi spá okkar eftir lækkar verðbólga úr 6,8% í 6,1%.
Kostnaður við að búa í eigin húsnæði hækkar
Samkvæmt spánni hækkar kostnaður við að búa í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) um 1,1% á milli mánaða (+0,20% áhrif á vísitöluna). Þar af hækkar íbúðaverð um 0,6% og áhrif vaxtabreytinga verða um 0,5 prósentustig. Við gerum ráð fyrir svipaðri breytingu í maí, en frá og með júní mun Hagstofan nota nýja aðferð við að mæla kostnað við að búa í eigin húsnæði, aðferð svokallaðra húsaleiguígilda. Sú aðferð byggir á því að kostnaður við búsetu í eigin húsnæði verði mældur með markaðsleigu. Það er enn óljóst hvaða áhrif þessi breyting mun hafa, en við gerum ráð fyrir að mælingar verði stöðugri og að mánaðarsveiflur í þessum lið verði því minni. Spá okkar fyrir þennan lið í júní og júlí er því háð töluverðri óvissu, en við gerum ráð fyrir lítilli mánaðarhækkun báða mánuðina.
Páskar hafa enn áhrif á flugfargjöld í apríl og bensínverð hækkar
Almennt er nokkuð skýr árstíðarbreyting á flugfargjöldum til útlanda: Þau hækka í mars og apríl í tengslum við páska, lækka í maí og júní og hækka aftur í júlí. Í ár voru páskar í lok mars og hækkuðu flugfargjöld um tæplega 10% í þeim mánuði. Við gerum því ráð fyrir að áhrif páskanna teygi sig yfir í apríl, þar sem páskarnir voru á mánaðamótunum og að flugfargjöld hækki aftur um 10% í apríl (+0,16% áhrif á vísitöluna). Samkvæmt verðkönnun okkar hækkaði verð á bensíni og díselolíu um 0,6% á milli mánaða (+0,02% áhrif á vísitöluna).
Matarkarfan hækkar aðeins
Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 0,4% í mars, nokkuð minna en í febrúar þegar hækkunin nam 0,7%. Við gerum ráð fyrir svipuðum takti næstu mánuði og að í apríl hækki matarkarfan um 0,5% (+0,07% áhrif á vísitöluna) á milli mánaða.
Spá um aprílmælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 15,0% | 0,5% | 0,07% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,4% | 0,01% |
Föt og skór | 3,9% | -0,3% | -0,01% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,6% | 0,3% | 0,03% |
Reiknuð húsaleiga | 19,2% | 1,1% | 0,20% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 5,8% | 0,2% | 0,01 |
Heilsa | 4,0% | 0,4% | 0,02% |
Ferðir og flutningar (annað) | 4,0% | 0,8% | 0,03% |
Kaup ökutækja | 6,8% | 0,2% | 0,02% |
Bensín og díselolía | 3,4% | 0,6% | 0,02% |
Flugfargjöld til útlanda | 1,6% | 10,0% | 0,16% |
Póstur og sími | 1,6% | 0,4% | 0,01% |
Tómstundir og menning | 9,9% | 0,0% | 0,00% |
Menntun | 1,1% | 0,0% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,4% | 0,2% | 0,01% |
Aðrar vörur og þjónusta | 6,6% | 0,5% | 0,03% |
Alls | 100,0% | 0,61% |
Spáum því að verðbólga lækki lítið næstu mánuði
Apríl í fyrra var mjög stór hækkunarmánuður en þá hækkaði vísitala neysluverðs um 1,3% á milli mánaða. Þar sem við gerum ekki ráð fyrir viðlíka hækkun í ár lækkar verðbólga töluvert í apríl samkvæmt spánni. Næstu þrjá mánuði þar á eftir gerum við ráð fyrir lítilli lækkun verðbólgunnar og að hún verði orðin 5,9% í júlí. Helstu óvissuþættir í spánni tengjast þróun húsnæðisverðs og hvernig það kemur inn í mælingar Hagstofunnar næstu mánuði. Íbúðaverðshækkanir munu ekki koma beint inn í vísitölumælingar með nýrri aðferð, heldur óbeint með áhrifum á leiguverð. Einnig hefur heimsmarkaðsverð á olíu hækkað það sem af er ári og er orðið örlítið hærra en það var fyrir ári síðan. Ef olíuverð heldur áfram að hækka má ætla að áhrif þess á verðbólgumælingar fari að sjást á næstu mánuðum.
Samkvæmt skammtímaspánni hækkar vísitala neysluverðs um 0,61% í apríl, 0,43% í maí, 0,6% í júní og 0,04% í júlí. Gangi spáin eftir verður verðbólga 6,1% í apríl og aftur í maí, lækkar svo í 5,9% í júní og verður aftur óbreytt í 5,9% í júlí.