Spáum að verðbólga lækki í 9,4% í janúar
Verðbólga mældist 9,6% í desember sem var nokkurn veginn í samræmi við væntingar okkar, en við höfðum spáð 9,5%. Þó verðbólga í heild hafi verið í takt við spá okkar var ýmislegt í tölunum sem kom okkur á óvart. Reiknuð húsaleiga, matarkarfan og húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hækkuðu nokkuð meira en við áttum von á. Verð á nýjum bílum hækkaði aftur á móti minna en við áttum von á.
Eigum von á að vísitalan hækki um 0,31% milli mánaða í janúar og ársverðbólgan lækki úr 9,6% í 9,4%
Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,31% milli mánaða í janúar. Gangi sú spá eftir mun ársverðbólgan lækka úr 9,6% í 9,4%. Að þessu sinni eru það sex undirliðir sem hafa mest áhrif: Matarkarfan, reiknuð húsaleiga, annað vegna húsnæðis og kaup ökutækja verða til hækkunar á meðan föt og skór, húsgögn, heimilisbúnaður, o.fl. verða til lækkunar, gangi spá okkar eftir.
Matarkarfan hækkar
Síðustu þrjá mánuði hefur matarkarfan hækkað að meðaltali um 1,0% milli mánaða sem er nokkuð meiri hækkun en við áttum von á. Hækkunin virðist vera nokkuð almenn - grænmeti hækkaði að meðaltali um 0,6% milli mánaða, önnur búvara um 1,2%, aðrar innlendar mat- og drykkjarvörur um 0,8% og innfluttar mat- og drykkjarvörur um 1,0%. Af fréttum að dæma hafa orðið nokkuð veglegar hækkanir hjá birgjum sem munu skila sér inn í verðlag. Alls eigum við von á að matarkarfan hækki um 1,5% milli mánaða og verða áhrif þess 0,22 prósentustig til hækkunar á vísitölu neysluverðs.
Skattabreytingar og gjaldskrárhækkanir um áramót
Um áramót komu til framkvæmda ýmsar skattabreytingar, en samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins má gera ráð fyrir að heildaráhrif þeirra geti orðið allt að 0,4% til hækkunar á VNV. Mestu munar um breytingar á vörugjaldi ökutækja, en við gerum því ráð fyrir að verð á nýjum bílum hækki um 3,2% milli mánaða. Bensíngjald hækkaði einnig um áramót og bendir verðkönnun okkar til að verð á dælueldsneyti hækki um 0,8% milli mánaða.
Eins og alltaf er þó nokkuð um gjaldskrárhækkanir í janúar. Gjaldskrá Orku náttúrunnar fyrir rafmagn til heimilisnota hækkar um 6,3% og Veitur hækka heitt vatn um 7,1%. Við eigum von á að heildaráhrif hækkana á hita og rafmagni verði 0,20 prósentustig til hækkunar á VNV. Skólagjöld hækka alla jafna í janúar og gerum við ráð fyrir að liðurinn menntun hækki um 0,9% milli mánaða. Einnig hefur Pósturinn tilkynnt um 5-10% hækkun á pakkasendingum innanlands og 20% hækkun á sendingum bréfa til útlanda. Verðskrá bréfa innanlands mun einnig taka breytingum og hækka í sumum þyngdarflokkum og lækka í öðrum. Vægi póstþjónustu í vísitölunni er samt það lítið að áhrifin eru óveruleg.
Útsölurnar svipaðar og fyrir faraldurinn
Á tímum faraldursins voru bæði júlí- og janúarútsölurnar nokkuð slakar. Líkleg skýring var aukin verslun Íslendinga innanlands á meðan utanlandsferðir voru ekki í boði. Við teljum líklegt að útsölurnar núna verði nær því sem var fyrir faraldurinn, enda ferðalög Íslendinga til útlanda komin í samt lag og vel það. Við gerum ráð fyrir að föt og skór lækki um 9,0% milli mánaða og húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækki um 4,9%. Gangi það eftir verða heildaráhrif janúarútsala 0,63 prósentustig til lækkunar á vísitölunni. Við gerum síðan ráð fyrir því að þessi lækkun gangi til baka á allra næstu mánuðum líkt og venja er.
Hægist á fasteignamarkaði en framlag vaxtabreytinga hækkar
Reiknuð húsaleiga samanstendur af markaðsverði húsnæðis á landinu öllu ásamt framlagi vaxtabreytinga húsnæðislána. Desembermæling Hagstofunnar á húsnæðisverði á landinu öllu var hærri en við áttum von á, aðallega vegna hækkana utan höfuðborgarsvæðisins. Það eru mun færri kaupsamningar utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess. Mælingar á markaðsverði þar geta sveiflast verulega milli mánaða og því er mjög varasamt að lesa of mikið í eina mælingu. Við breytum ekki skoðun okkar á líklegri framvindu fasteignaverðs og gerum áfram ráð fyrir að hækkanir verði litlar á næstunni. Við spáum því að markaðsverð húsnæðis hækki um 0,1% milli mánaða sem er vel undir sögulegu meðaltali.
Framlag vaxtabreytinga fór lægst í 0,3 prósentustig til lækkunar vorið 2022. Síðan hefur það risið samhliða hækkunum á vöxtum til íbúðalána sem mældist til hækkunar í reiknaðri húsaleigu í september 2022, í fyrsta sinn síðan í janúar 2019. Við eigum von á framhaldi á þessari þróun og að framlag vaxtabreytinga til hækkunar á reiknaðri húsaleigu verði 0,5 prósentustig. Alls gerum við því ráð fyrir að reiknuð húsaleiga hækki um 0,6% milli mánaða og að áhrif þess á VNV verði 0,11% til hækkunar.
Spá um janúarmælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting | Áhrif |
Matur og drykkjarvara | 15,2% | 1,5% | 0,22% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 1,6% | 0,04% |
Föt og skór | 3,4% | -9,0% | -0,31% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 10,2% | 2,5% | 0,26% |
- Reiknuð húsaleiga | 20,0% | 0,6% | 0,11% |
Húsgögn og heimilisbúnaður | 6,4% | -4,9% | -0,32% |
Heilsa | 3,7% | 0,0% | 0,00% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,9% | 0,3% | 0,01% |
- Kaup ökutækja | 5,9% | 3,2% | 0,19% |
- Bensín og díselolía | 3,8% | 0,8% | 0,03% |
- Flugfargjöld til útlanda | 1,9% | -2,0% | -0,04% |
Póstur og sími | 1,6% | 0,2% | 0,00% |
Tómstundir og menning | 9,2% | -0,1% | -0,01% |
Menntun | 0,7% | 0,9% | 0,01% |
Hótel og veitingastaðir | 4,9% | 0,5% | 0,02% |
Aðrar vörur og þjónusta | 7,0% | 1,3% | 0,09% |
Alls | 100,0% | 0,31% |
Eigum von á að verðbólgan hjaðni hægt á næstu mánuðum
Það hefur ekki orðið veruleg breyting á verðbólguhorfum til næstu mánaða frá því við birtum síðast verðbólguspá í lok desember. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni rólega á næstu mánuðum, en þó gerist það aðeins hægar en áður var spáð, aðallega vegna þess að við gerum ráð fyrir ögn veikari gengi, meiri hækkun á verði matvöru og hærri gjaldskrárhækkunum í janúar. Við eigum von á að vísitalan hækki um 0,74% í febrúar, 0,35% í mars, aðallega vegna útsöluloka, en janúarútsölurnar ganga yfirleitt til baka í febrúar og mars. Við spáum því síðan að vísitalan hækki um 0,60% í apríl, aðallega vegna hækkana á matarkörfunni, flugfargjöldum til útlanda og reiknaðri húsaleigu. Verðbólga var töluverð í febrúar, mars og apríl í fyrra og því mun ársverðbólgan lækka við það að þessir mánuðir detti út úr mælingunni. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólgan lækka niður í 8,9% í febrúar, 8,3% í mars og 7,6% í apríl.