Spáum 7,7% verðbólgu í september
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,07% milli mánaða í september og að verðbólga standi í stað og verði áfram 7,7%. Útsölulok teygja sig yfirleitt fram í september og munu hafa mest áhrif til hækkunar í mánuðinum. Flugfargjöld til útlanda lækka einnig alla jafna í september og munu hafa mest áhrif til lækkunar gangi spá okkar eftir. Flugfargjöld hafa síðustu mánuði fylgt mjög svipaðri þróun og fyrir ári síðan og við gerum ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram. Við spáum því að húsnæðisverð lækki á milli mánaða í september en að áhrif vaxtabreytinga verði til hækkunar.
Spáum því að reiknuð húsaleiga hækki
Áhrif húsnæðis á verðbólgu hafa dregist saman síðustu mánuði. Ágúst var fyrsti mánuður síðan apríl 2021 sem húsnæðisliðurinn var ekki veigamesti hluti verðbólgunnar. Síðustu tvo mánuði hefur reiknuð húsaleiga, sem samanstendur af íbúðaverði og verðtryggðum vöxtum, lækkað á milli mánaða. Þar skipti bæði máli að íbúðaverð lækkaði þessa mánuði en einnig að áhrif vaxta til hækkunar drógust örlítið saman. Við gerum áfram ráð fyrir því að íbúðaverð lækki í september, en eftir síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans hafa verðtryggðir vextir hækkað. Við spáum því að reiknuð húsaleiga hækki um 0,3%, þar sem íbúðaverð lækkar um 0,3% en áhrif vaxta verði til hækkunar um 0,6%.
Sumarútsölurnar enn að ganga til baka
Eftir verðlækkun á fötum og skóm í sumarútsölum sjáum við yfirleitt verðin ganga til baka, bæði í ágúst og september, þegar útsölurnar klárast. Í júlí lækkaði verð á fötum og skóm um 8,7% á milli mánaða og í ágúst hækkaði verð aftur um 5,8%. Við gerum ráð fyrir því að sjá verð á fötum og skóm hækka aftur um 4,6% í september.
Bensínverð hækkar áfram og flugfargjöld lækka í september
Samkvæmt verðathugun okkar gerum við ráð fyrir því að bensín og díselolíur hækki um 1,9% á milli mánaða í vísitölu neysluverðs.
Á fyrstu fimm mánuðum ársins var að meðaltali 23% dýrara að fljúga til útlanda en á sama tímabili í fyrra. Frá því í júní hefur þessi munur dregist verulega saman. Í júlí og ágúst var einungis 2% dýrara að fljúga til útlanda en í sömu mánuðum í fyrra. Við gerum ráð fyrir því að þessi þróun haldi áfram næstu mánuði og að flugfargjöld til útlanda lækki um 18,7% í september. Þó er gott að hafa í huga að verð á flugfargjöldum sveiflast töluvert þó þau fylgi ágætlega árstíðarsveiflu og því erfitt að spá fyrir um breytingar milli stakra mánaða.
Spá um septembermælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 14,9% | 0,2% | 0,03% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,0% | 0,00% |
Föt og skór | 3,8% | 4,6% | 0,17% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,7% | 0,2% | 0,02% |
- Reiknuð húsaleiga | 18,9% | 0,3% | 0,05% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,3% | 0,2% | 0,02% |
Heilsa | 3,7% | 0,2% | 0,01% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,8% | 0,0% | 0,00% |
- Kaup ökutækja | 6,2% | 0,0% | 0,00% |
- Bensín og díselolía | 2,9% | 1,9% | 0,06% |
- Flugfargjöld til útlanda | 2,1% | -18,7% | -0,39% |
Póstur og sími | 1,7% | 0,2% | 0,00% |
Tómstundir og menning | 10,0% | 0,8% | 0,08% |
Menntun | 1,0% | 0,9% | 0,01% |
Hótel og veitingastaðir | 5,4% | -0,2% | -0,01% |
Aðrar vörur og þjónusta | 7,3% | 0,4% | 0,03% |
Alls | 100,0% | 0,07% |
Spáum 6,6% verðbólgu í desember
Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,14% milli mánaða í október, lækki um 0,06% í nóvember og hækki síðan um 0,54% í desember. Gangi spáin eftir verður verðbólga 7,1% í október, 6,7% í nóvember og 6,6% í desember. Þetta er meiri verðbólga en í síðustu spá sem við birtum eftir ágústmælingu Hagstofunnar. Munurinn skýrist að mestu leyti af því að við gerum ráð fyrir að reiknuð húsaleiga verði örlítið hærri en í síðustu spá. Töluverð óvissa er um þróun á bæði íbúðaverði og flugfargjöldum til útlanda næstu mánuði, stórum liðum í vísitölunni sem gætu sveiflast nokkuð.