Spáum 6,6% verðbólgu í mars
Vísitalan hækkaði um 1,33% á milli mánaða í febrúar, en við höfðum spáð 0,89% hækkun. Það var fernt sem kom okkur á óvart: janúarútsölum á fötum og skóm virðist hafa lokið fyrr en vanalega; gjaldskrárhækkanir fyrir sorphirðu, holræsi og kalt vatn höfðu töluvert meiri áhrif til hækkunar en við áttum von á; matarkarfan hækkaði meira en við gerðum ráð fyrir og flugfargjöld til útlanda hækkuðu á milli mánaða þegar við höfðum spáð lækkun.
Spáum 0,57% hækkun í mars og að ársverðbólgan haldist óbreytt í 6,6%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,57% á milli mánaða í mars. Mest áhrif til hækkunar í spá okkar hafa reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda, föt og skór og matarkarfan. Gangi spá okkar eftir helst ársverðbólgan óbreytt í 6,6%.
Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 0,7% í febrúar, sem var talsvert meira en við spáðum og reyndist hækkunin nokkuð almenn. Við gerum ráð fyrir heldur minni hækkun nú í mars og að matarkarfan hækki um 0,3% milli mánaða (+0,05% áhrif á vísitöluna).
Útsölulok á fötum og skóm
Útsölurnar í janúar voru í samræmi við væntingar. Það kom þó á óvart að þær virðast hafa klárast fyrr en vanalega þar sem verð á fötum og skóm hækkaði meira á milli mánaða í febrúar en alla jafna. Vanalega ganga áhrif janúarútsala til baka á tveimur mánuðum, í febrúar og mars. Við gerum áfram ráð fyrir þeirri þróun en að þungi verðhækkana sé þegar kominn fram og vænta megi minni hækkunar í mars en venjulega, eða um 3% milli mánaða (+0,11% áhrif).
Kostnaður við að búa í eigin húsnæði hækkar
Samkvæmt spánni hækkar kostnaður við að búa í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) um 0,9% á milli mánaða (+0,18% áhrif á vísitöluna). Þar af hækkar íbúðaverð um 0,4% og áhrif vaxtabreytinga verður um 0,5 prósentustig. Hagstofan hefur tilkynnt að hún muni taka upp nýja aðferð við útreikninga á kostnaði við að búa í eigin húsnæði. Í stað þess að reikna svokallaðan einfaldan notendakostnað út frá markaðsverði húsnæðis, vöxtum á íbúðalánum og afskriftum verður tekin upp aðferð leiguígilda sem byggir á upplýsingum um markaðsleigu. Hagstofan telur að með betri gögnum um leigumarkað hafi skapast forsendur fyrir því að breyta um aðferð. Það er enn óljóst hvaða áhrif þessi breyting mun hafa, en gerum þó ráð fyrir mælingar verði stöðugri og að mánaðarsveiflur í þessum lið verði því minni. Hagstofan mun birta greinargerð með nánari útlistun á aðferðafræðinni og tímasetningu breytinganna nú í mars.
Páskar hafa áhrif á flugfargjöld í mars og bensínverð lækkar
Almennt er nokkuð skýr árstíðarbreyting á flugfargjöldum til útlanda - þau hækka í mars og apríl, lækka í júní og hækka aftur í júlí. Í ár eru páskar í lok mars, sem ætti að verða til þess að flugfargjöld hækki hlutfallslega meira í mars og minna í apríl en þegar páskarnir eru í apríl. Við spáum því að flugfargjöld hækki um 8% milli mánaða (+0,12% áhrif á vísitöluna) núna í mars. Samkvæmt verðkönnun okkar lækkaði verð á bensín og díselolíu um 0,4% milli mánaða (-0,01% áhrif á vísitöluna). Loks eigum við von á að verð á nýjum bílum hækki aðeins lítillega, eða um 0,2% á milli mánaða (+0,01% áhrif á vísitöluna). Alls eigum við því von á að liðurinn ferðir og flutningar verði 0,13% til hækkunar vísitölunnar núna í mars.
Spá um marsmælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 15,0% | 0,3% | 0,05% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | -0,2% | 0,00% |
Föt og skór | 3,8% | 3,0% | 0,11% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,6% | 0,3% | 0,03% |
Reiknuð húsaleiga | 18,9% | 0,9% | 0,18% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 5,8% | -0,6% | -0,04 |
Heilsa | 4,0% | 0,6% | 0,02% |
Ferðir og flutningar (annað) | 4,0% | 0,4% | 0,02% |
Kaup ökutækja | 6,9% | 0,2% | 0,01% |
Bensín og díselolía | 3,4% | -0,4% | -0,01% |
Flugfargjöld til útlanda | 1,5% | 8,0% | 0,12% |
Póstur og sími | 1,6% | -0,7% | -0,01% |
Tómstundir og menning | 10,0% | 0,3% | 0,03% |
Menntun | 1,1% | -0,2% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,4% | 0,4% | 0,02% |
Aðrar vörur og þjónusta | 6,6% | 0,7% | 0,04% |
Alls | 100,0% | 0,57% |
Spáum því að verðbólga lækki áfram næstu mánuði
Við spáum því að verðbólga standi í stað í mars, en næstu þrjá mánuði þar á eftir gerum við ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,54% í apríl, 0,33% í maí og 0,55% í júní. Gangi spáin eftir verður verðbólga 6,6% í mars, 5,8% í apríl, 5,7% í maí og 5,4% í júní. Að ársverðbólgan detti svona niður í apríl skýrist af grunnáhrifum, en vísitalan hækkaði óvenju mikið á milli mánaða í apríl í fyrra.