Spá­um 0,5 pró­sentu­stiga hækk­un stýri­vaxta í októ­ber

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki vexti bankans um 0,5 prósentustig í næstu viku. Gangi spá okkar eftir fara meginvextir bankans, sjö daga bundin innlán, úr 5,5% upp í 6%.
Seðlabanki
29. september 2022 - Greiningardeild

Stýrivextir Seðlabankans náðu sögulegu lágmarki í 0,75 prósentustigum í maí á síðasta ári. Síðan hefur peningastefnunefnd hækkað stýrivexti um 4,75 prósentustig og eru vextir bankans því 5,5% nú. Líklegt er að vaxtahækkunarferlinu sé ekki lokið og mun Seðlabankinn enn þurfa að herða aðhaldið með hækkunum vaxta til þess að koma í veg fyrir að mikil verðbólga festist í sessi. Mjög mikilvægt er einnig að peningastefnunefnd takist að draga úr verðbólguvæntingum til þess að verðbólga aukist ekki enn frekar. Aðilar hagkerfisins, þ.e. fyrirtæki og heimili, verða að öðlast trú á að Seðlabankanum takist að ná verðbólgu niður í markmið innan ásættanlegs tíma.

Viðsnúningur í verðbólguþróuninni hafinn

Verðbólgan náði tímabundnu hámarki í 9,9% í júlí. Hún hjaðnaði niður í 9,7% í ágúst. Var það fyrsta merki þess að verðbólga hefði náð hámarki og fram undan væru lægri verðbólgutölur. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn síðan í júní í fyrra sem 12 mánaða verðbólga minnkaði milli mánaða. Verðbólgan í september mældist 9,3%, sem er þá annar mánuðurinn í röð með minnkandi verðbólgu, og frekari staðfesting þess að verðbólga fari hjaðnandi. Líkur á að hámark verðbólgunnar hafi verið nú í júlí teljum við vera mjög miklar og þarf ansi margt að ganga á svo að verðbólga mælist hærri en svo á næstu mánuðum. Það sem hefur mikil áhrif á verðbólguþróunina nú um stundir er sá mikli viðsnúningur sem hefur orðið á þróun fasteignaverðs. Miklar fasteignaverðshækkanir hafa verið megindrifkraftur aukinnar verðbólgu á þessu ári. Hröð kólnun markaðarins í júlí og ágúst bendir eindregið til þess að þessar miklu verðhækkanir á fasteignamarkaði séu að baki og við taki mjög litlar hækkanir, stöðnun eða jafnvel lítils háttar verðlækkanir.

Seðlabankinn líklegast að ofspá verðbólgu á fjórða fjórðungi

Þróunin á íbúðamarkaði mun styðja við hjöðnun verðbólgunnar og við spáum því að verðbólga mælist 8,5% á fjórða ársfjórðungi en hún mældist 9,7% á þriðja fjórðungi. Fram undan er því hæg hjöðnun verðbólgunnar að okkar mati. Við erum þar á öndverðum meiði við Seðlabankann sem spáði því í lok ágúst að verðbólgan myndi ná hámarki í 10,8% á fjórða fjórðungi. Sú spá gerði ráð fyrir 10,2% verðbólgu á þriðja fjórðungi en raunin varð 9,7%. Þetta var í fyrsta sinn síðan á fjórða ársfjórðungi 2020 sem Seðlabankinn ofmetur verðbólguna á sama fjórðungi og spáin kemur út. Það er nokkuð ljóst að spá Seðlabankans um verðbólgu frá því í ágúst er úrelt og ólíklegt að peningastefnunefnd horfi mikið til hennar í vaxtaákvörðuninni í næstu viku. Seðlabankinn birtir nýja verðbólguspá í nóvember og teljum við líklegt að sú spá verði færð niður á við.

Verðbólguvæntingar eru langt umfram verðbólgumarkmiðið

Eitt helsta verkefni seðlabanka um allan heim í dag er að koma í veg fyrir að sú háa verðbólga sem mælist nú leiði af sér áframhaldandi mikla verðbólgu í framtíðinni. Verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja hér á landi sem og annars staðar hafa aukist mikið á stuttum tíma og eru nú víðast hvar verulega hærri en verðbólgumarkmið. Háar verðbólguvæntingar hafa tilhneigingu til að rætast og því skiptir miklu máli að ná þeim niður á ný. Í sinni einföldustu mynd leiða háar verðbólguvæntingar heimila til hærri launakrafna til þess að verja kaupmátt og það skilar sér í hærri launakostnaði fyrirtækja sem er hætt við að verði velt út í verðlag. Háar verðbólguvæntingar fyrirtækja auka hvata þeirra til þess að hækka verð tíðar og meira í þeirri trú að önnur fyrirtæki geri slíkt hið sama. Verðbólguvæntingar heimila voru í lok júní komnar upp í 8% og höfðu ekki verið hærri síðan í júní 2010 en þá mældist verðbólga 7,1%. Verðbólguvæntingar fyrirtækja voru 6% í lok júní en svo háar hafa þær ekki mælst síðan í árslok 2009.

Lækkun verðbólguvæntinga er lykilatriði fyrir þróun stýrivaxta fram á við

Það ríkir töluverð óvissa um það hversu hátt peningastefnunefnd telur að stýrivextir þurfi að fara og hversu lengi þeir þurfi að vera háir. Það mun ráðast af samspili verðbólguþróunar og verðbólguvæntinga. Mikilvægt er að háar verðbólguvæntingar festist ekki í sessi hér á landi því það mun þýða að hækka verði vextina meira og halda þeim háum lengur en ella til þess að verðbólgumarkmiðið náist innan ásættanlegs tíma. Þróun verðbólguvæntinga mun eflaust ráðast að miklu leyti af sjálfri verðbólguþróuninni. Ekki er ólíklegt að draga taki úr verðbólguvæntingum um leið og heimili og fyrirtæki sjá að verðbólga fer hjaðnandi líkt og hún er þegar byrjuð að gera.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Fiskveiðinet
24. feb. 2025
Vikubyrjun 24. febrúar 2025
Í vikunni birtir Hagstofan febrúarmælingu vísitölu neysluverðs og þjóðhagsreikninga fyrir lokafjórðung síðasta árs. Í síðustu viku uppfærði Hafrannsóknarstofnun ráðleggingar um loðnuafla en samkvæmt því munu íslensk skip fá um 4,6 þúsund tonn. Í síðustu viku bárust einnig gögn um greiðslukortaveltu landsmanna í janúar sem var 6,5% meiri að raunvirði en árið áður. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5% á milli mánaða í janúar, en svo mikið hefur hún ekki hækkað síðan í febrúar 2024.
Fjölbýlishús
21. feb. 2025
Íbúðaverð tók stökk í janúar
Íbúðaverð hækkaði mun meira í janúar en síðustu mánuði. Íbúðaverð hefur verið nokkuð sveiflukennt og óútreiknanlegt undanfarið en stökkið í janúar skýrist af verðhækkun á sérbýli. Íbúðum á sölu hefur fjölgað hratt síðustu mánuði og birgðatími lengst. Grindavíkuráhrifin hafa fjarað út að langmestu leyti og hækkanir á verðtryggðum vöxtum kældu markaðinn undir lok síðasta árs.
Ferðamenn á jökli
19. feb. 2025
Færri ferðamenn en meiri kortavelta 
Um 122 þúsund ferðamenn komu til landsins í janúar, samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Ferðamenn voru 5,8% færri en á sama tíma í fyrra sem er á skjön við þróun síðustu mánaða, en allt frá því í júlí sl. hefur ferðamönnum fjölgað á milli ára. Þótt ferðamönnum hafi fækkað í janúar hélt kortavelta þeirra áfram að aukast. 
Greiðsla
18. feb. 2025
Neysla enn á uppleið þótt atvinnuleysi aukist
Enn eru merki um að landsmenn hafi svigrúm til neyslu þrátt fyrir langvarandi hávaxtastig. Kortavelta eykst með hverjum mánuðinum, utanlandsferðir í janúar hafa aldrei verið jafnmargar og í ár og samt virðast yfirdráttarlán ekki hafa færst í aukana. Á sama tíma hefur slaknað þó nokkuð á spennu á vinnumarkaði, eftirspurn eftir vinnuafli hefur dvínað og atvinnuleysi tók stökk í janúar þegar það fór yfir 4%.
Fólk við Geysi
17. feb. 2025
Vikubyrjun 17. febrúar 2025
Erlendum ferðamönnum í janúar fækkaði um 5,8% á milli ára samkvæmt talningu Ferðamálastofu sem birt var í síðustu viku. Einnig fóru fram verðmælingar Hagstofunnar vegna vísitölu neysluverðs í febrúar og spáum við því að verðbólga hjaðni niður í 4,3%. Í þessari viku fáum við kortaveltutölur frá Seðlabankanum, vísitölur íbúða- og leiguverðs frá HMS auk þess sem fundargerð peningastefnunefndar verður birt.
Litríkir bolir á fataslá
13. feb. 2025
Spáum áframhaldandi hjöðnun í febrúar: Úr 4,6% í 4,3%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,98% á milli mánaða í febrúar og að verðbólga hjaðni úr 4,6% í 4,3%. Við búumst við áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,7% í maí.   
Seðlabanki Íslands
10. feb. 2025
Vikubyrjun 10. febrúar 2025
Peningastefnunefnd lækkaði vexti um 0,5 prósentustig í síðustu viku. Í þessari viku koma tölur um skráð atvinnuleysi og fjölda brottfara frá Leifsstöð auk þess sem Hagstofan framkvæmir verðkannanir vegna vísitölu neysluverðs. Uppgjörstímabilið í Kauphöllinni er síðan enn í fullum gangi.
3. feb. 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 3. febrúar 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Flutningaskip
3. feb. 2025
Aukinn halli af vöruviðskiptum í fyrra
Halli af vöruviðskiptum jókst í fyrra, en ekki með sama hraða og síðustu tvö ár þar á undan. Að það hægi á aukningunni gæti verið merki um að jafnvægi sé að aukast í hagkerfinu, en á móti kemur að innflutningsverðmæti hafa aldrei verið meiri sem gæti verið merki um aukin umsvif.
Seðlabanki Íslands
3. feb. 2025
Vikubyrjun 3. febrúar 2025
Verðbólga lækkaði á milli mánaða í janúar, úr 4,8% í 4,6%. Við eigum von á að Seðlabankinn lækki vexti um 0,5 prósentustig á miðvikudaginn. Fyrstu uppgjör fyrir árið 2024 komu í síðustu viku, en uppgjörstímabilið heldur áfram í þessari viku.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur