Samneysla jókst mikið 2020 - opinber fjárfesting minni en stefnt var að
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands jukust samneysluútgjöld hins opinbera um 10,1% á milli ára 2019 og 2020. Fjárfestingarútgjöld hins opinbera drógust hins vegar lítillega saman á sama tíma, eða um 0,4%.
Á árinu 2020 var samneysla 27,8% af vergri landsframleiðslu ársins og jókst úr 24,4% á árinu 2019. Þetta eru hlutfallslega langmestu samneysluútgjöld sem hafa sést hér á landi, en meðalhlutfall samneyslu á ári á þessari öld hefur verið 24,3%. Eins og getið var um í nýlegri Hagsjá er rekstur hins opinbera erfiður þessi misserin. Það á einkum við um ríkissjóð, sem hefur orðið fyrir mun meira tekjufalli en sveitarfélögin, og hefur auk þess þurft að taka á sig mikil útgjöld vegna kreppunnar sem hefur fylgt kórónufaraldrinum. Hluti af hækkun hlutfallsins kemur að sjálfsögðu til vegna lækkunar landsframleiðslunnar, en engu að síður hækkaði samneyslan um 4,5% á föstu verðlagi á árinu 2020.
Sé litið á bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga lítur út fyrir að heldur hafi dregið úr aukningu samneyslunnar á síðustu ársfjórðungum. Þannig var aukningin á fyrri hluta árs 2021 2,7% miðað við 5,5% aukningu í fyrra.
Opinber fjárfesting dróst saman um 3,7% að raunvirði á árinu 2020. Þetta er annað árið í röð sem opinber fjárfesting minnkar, en samdrátturinn var 9,1% á árinu 2019. Opinber fjárfesting var einungis 3,7% af vergri landsframleiðslu í fyrra, en hún hefur að meðaltali verið um 3,9% af VLF frá árinu 2001. Þetta er mun lakari niðurstaða en bæði yfirlýsingar stjórnvalda og samþykktar heimildir hafa gefið kynna.
Fjárfesting hins opinbera í heild hefur aukist nokkuð á fyrri hluta ársins 2021 samkvæmt bráðabirgðatölum. Þannig jókst fjárfesting ríkissjóðs um 16% á fyrsta ársfjórðungi frá síðasta ári og um 17% á öðrum. Samsvarandi tölur fyrir sveitarfélögin voru 15,8% og 6,6%.
Sveitarfélögin fjárfesta að jafnaði fyrir mun hærra hlutfall af tekjum en ríkissjóður. Á tímabilinu 2010 til 2020 fjárfestu sveitarfélögin að meðaltali fyrir um 10% af tekjum á hverju ári. Hæst varð hlutfallið 14% á árinu 2018 en lægst um 8% á árinu 2016. Ríkissjóður fjárfesti að jafnaði fyrir um 6% af tekjum á tímabilinu, mest 7,7% á árinu 2020 og minnst 3,5% á árinu 2016.
Hlutverk hins opinbera í hagstjórn og efnahagslífinu hefur þannig verið stórt á síðustu misserum og verður það áfram á næstu árum. Eðli málsins samkvæmt hafa samneysluútgjöld aukist verulega. Markmið ríkissjóðs um verulega aukningu fjárfestingar á krepputímum hafa ekki náð fram að ganga að fullu. Öllum er ljóst að mikil þörf er á fjárfestingu í innviðum og rétti tíminn til þess er einmitt í kreppu. Það er því mikilvægt að gangur komist í opinberar fjárfestingar áður en almennar atvinnuvegafjárfestingar taka að aukast fyrir alvöru.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Samneysla jókst mikið 2020 - opinber fjárfesting minni en stefnt var að