Óverðtryggð íbúðalán hjá viðskiptabönkunum þrefölduðust í heimsfaraldrinum
Heildarupphæð útistandandi íbúðalána var í lok apríl 2.280 ma. kr. Þar af voru 71% upphæðarinnar hjá viðskiptabönkunum, 22% hjá lífeyrissjóðunum og 7% hjá lánasjóðum ríkisins. Þetta er veruleg breyting frá því sem áður var, en til samanburðar var hlutdeild viðskiptabankanna 42%, lífeyrissjóða 13% og lánasjóða ríkisins 45% í byrjun árs 2014. Það hefur því orðið mikil breyting á síðustu árum þar sem íbúðalán færast í auknum mæli til bankanna.
Það er þó ekki eina breytingin sem hefur átt sér stað heldur hefur færst mjög í aukana að tekin séu óverðtryggð lán, en þá þróun má rekja til lækkunar stýrivaxta hjá Seðlabanka Íslands, ferli sem hófst 2019 og stóð allt til vormánaða 2021. Það hefur leitt til þess að í dag er um helmingur upphæðar útistandandi íbúðalána (55% af heildinni) óverðtryggð og tæplega helmingur upphæðarinnar (45% af heildinni) eru verðtryggð. Til samanburðar var 30% upphæðarinnar óverðtryggð og 70% verðtryggð í byrjun árs 2014.
Eftir vaxtalækkanirnar vegna heimsfaraldursins lá straumurinn aðallega yfir í óverðtryggð íbúðalán hjá viðskiptabönkunum. Á meðan vextir voru hvað lægstir var aðallega um að ræða lán með breytilegum vöxtum, en eftir að Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferlið um mitt ár 2021 sést hreyfing yfir í óverðtryggð lán með föstum vöxtum. Í gegnum faraldurinn þrefölduðust óverðtryggð íbúðalán hjá viðskiptabönkunum, úr 370 mö. kr. í 1.090 ma. kr. Mun minni breyting var á öðrum tegundum íbúðalána.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Óverðtryggð íbúðalán hjá viðskiptabönkunum þrefölduðust í heimsfaraldrinum