Mesta fækkun gistinátta á suðvesturhorninu á síðasta ári
Gistinætur á heilsárshótelum námu 1,3 milljónum borið saman við 4,2 milljónir árið áður og dróst fjöldi þeirra saman um 68,2% milli ára. Gistinóttum erlendra ferðamanna fækkaði um 76% en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 5,8%. Árið var mjög kaflaskipt hvað þróunina varðar. Áhrifa farsóttarinnar gætti eiginlega ekki fyrr en í mars en þau komu síðan fram af fullum þunga í apríl og í þeim mánuðum sem eftir lifðu árs. Fækkun erlendra ferðamanna var 22% á fyrsta fjórðungi en lá síðan á bilinu 86-98% á síðustu þremur fjórðungum ársins. Minnsti samdrátturinn var á þriðja fjórðungi en nokkuð var um að erlendir ferðamenn kæmu hingað yfir sumarið. Gistináttafjöldi Íslendinga breyttist lítið á öðrum fjórðungi en síðan varð mikil fjölgun á þriðja fjórðungi, eða um 136%. Síðan varð töluvert mikil fækkun á fjórða fjórðungi, eða 47%.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Mesta fækkun gistinátta á suðvesturhorninu á síðasta ári