Merki um lít­ils­hátt­ar kóln­un á vinnu­mark­aði

Atvinnuleysi er nú aðeins meira en á sama tíma í fyrra og laun hækka minna. Nýbirt launavísitala sýnir 0,2% hækkun á milli mánaða í maí og hafa laun nú hækkað um 6,7% á síðustu tólf mánuðum. Allar líkur eru á að á þessu ári hækki laun mun minna en á síðasta ári, enda hafa nýir kjarasamningar minni hækkanir í för með sér en þeir síðustu.
Bílar
25. júní 2024

Launavísitalan hækkaði aðeins örlítið í maí, um 0,2%. Á síðustu mánuðum hefur dregið verulega úr árshækkun launavísitölunnar. Hún stendur nú í 6,7% en í maí í fyrra stóð hún í 9,6% og fór hæst í 10,9% í september síðastliðnum þegar mestu launahækkanir vegna síðustu kjarasamningslotu voru komnar inn í vísitöluna. Samið hefur verið á mun hófstilltari hátt í yfirstandandi lotu en í þeirri síðustu og því líklegt að laun hækki mun minna nú en í fyrra. Þó má áfram gera ráð fyrir hækkunum næstu mánuði eftir því sem áhrif kjarasamninga verða ljós. Einnig má leiða líkur að því að launaskrið verði talsvert minna en á síðustu misserum enda hefur hægt verulega á vexti hagkerfisins undanfarið og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs dróst landsframleiðsla saman um 4%.

Laun segja aðeins hluta af sögunni – lítil hreyfing á kaupmætti

Þrátt fyrir ríflegar launahækkanir á síðustu árum hefur verðbólga étið upp kaupmátt landsmanna. Þróun kaupmáttar launa segir til um launaþróun að teknu tilliti til verðbólgu og segir mun meira um þróun lífskjara en launaþróun ein og sér. Um mitt ár 2022 lauk 12 ára skeiði stöðugrar kaupmáttaraukningar. Þá tók kaupmáttur launa að dragast saman vegna ört vaxandi verðbólgu – flesta síðustu mánuði hefur kaupmáttur launa nú aukist lítillega aftur samfara hjaðnandi verðbólgu. Hann dróst reyndar saman um 0,4% á milli mánaða í maí og hefur aðeins hækkað um 0,5% á síðustu tólf mánuðum.

Önnur og nákvæmari leið til að meta kaupmátt landsmanna er að skoða kaupmátt ráðstöfunartekna á mann. Þar er ekki aðeins tekið tillit til launa heldur einnig eignatekna, lífeyris og félagslegra bóta. Til frádráttar koma gjöld á borð við eignagjöld, skatta og tryggingagjöld. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann fæst svo með því að skoða ráðstöfunartekjur að teknu tilliti til verðbólgu. Hann hefur minnkað á síðustu tveimur árum eftir langt vaxtarskeið, að Covid-árunum frádregnum, en jókst svo um tæpt prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Síðustu mánuði hafa síhækkandi vaxtagjöld dregið úr ráðstöfunartekjum heimila. Á sama tíma hafa vaxtatekjur heimila aukist og nýlega tóku vaxtatekjur heimilanna fram úr vaxtagjöldum sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimila. Hagstofan áætlar að alls hafi vaxtatekjur heimila aukist um 36,1% á tímabilinu frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs til fyrsta fjórðungs þessa árs og að á sama tíma hafi vaxtagjöld aukist um 22,8%.

Hátt vaxtastig hefur bæði áhrif á tekjur og gjöld heimilanna. Auknar vaxtatekjur af sparifé ýta upp ráðstöfunartekjum, sérstaklega eftir að raunvextir urðu jákvæðir og vextir á sparireikningum fóru fram úr verðbólgu. Há vaxtagjöld rýra aftur á móti ráðstöfunartekjur, sér í lagi þeirra sem eru með lán á breytilegum vöxtum.

Atvinnuleysi lítið breytt en meira en í fyrra

Atvinnuleysi mældist 3,4% í maí og minnkaði úr 3,6% frá því í aprílmánuði, enda minnkar atvinnuleysi alla jafna eftir því sem nær dregur sumri. Atvinnuleysi var 3,0% í maí í fyrra og hefur síðustu mánuði verið 0,3-0,4 prósentustigum yfir því sem það var á sama tíma á síðasta ári. Að meðaltali voru 6.041 atvinnulausir á landinu í maí.

Atvinnulausum fækkaði í langflestum atvinnugreinum í maí en mest í verslun, vöruflutningum og veitingaþjónustu. Atvinnulausum fjölgaði í nokkrum greinum, mest í byggingariðnaði, sem er athyglisvert á þessum árstíma og kann að vera merki um kólnun í greininni. Erfitt er að segja til um horfur í byggingariðnaði um þessar mundir enda berast misvísandi gögn um umsvif í greininni. Sem dæmi má nefna að fjárfesting í íbúðarhúsnæði jókst um tæp 16% á milli ára á fyrsta fjórðungi þessa árs en samkvæmt talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur íbúðum í byggingu fækkað sífellt síðasta árið.

441 starfsmanni var sagt upp í sex hópuppsögnum í maí, samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar. Uppsagnirnar voru í störfum tengdum smásölu, opinberri stjórnsýslu, farþegaflutningum og fiskvinnslu. Vinnumálastofnun gefur ekki upp nánari upplýsingar um hópuppsagnir en fjallað hefur verið um sumar þeirra í fréttum á síðustu vikum. Uppsagnir hjá Grindavíkurbæ og fyrirtækjum þar eiga sér augljósar skýringar, en hugsanlega má rekja aðrar hópuppsagnir til þess að tekið sé að draga úr umsvifum í hagkerfinu með hækkandi vaxtastigi, þótt einnig kunni launahækkanir síðustu ára að spila inn í. Óvíst er þó um nákvæmar ástæður og kemur í ljós þegar fram sækir hvort um marktæka þróun sé að ræða eða ekki. 

Eftir að faraldrinum linnti dró hratt úr atvinnuleysi og það fór lægst í 2,8% síðasta sumar. Atvinnuleysisstigið hefur þó ekki komist í jafnlág gildi og á árunum 2016-2018 þegar ferðaþjónusta var í hröðum vexti. Þá fór það lægst í 1,8% og fyrir hrun fór það niður í 0,8%.

Í íslensku samhengi er því ekki hægt að segja að atvinnuleysi sé nálægt sögulegu lágmarki og líklega eykst það á næstu misserum eftir því sem þétt peningalegt aðhald dregur þróttinn úr hagkerfinu.

Það má velta því upp hvort aukinn hreyfanleiki vinnuafls kunni að skýra að atvinnuleysi hafi ekki lækkað meira en raun ber vitni, þótt aðrir hagvísar bendi til mikillar spennu á vinnumarkaði. Hlutfall innflytjenda af þeim sem starfa á íslenskum vinnumarkaði hefur aukist verulega á síðustu árum. Af þeim sem eru starfandi á Íslandi eru tæp 25% innflytjendur, en árið 2010 var hlutfallið 10%. Líklega gera fólksflutningar það að verkum að kólnun í hagkerfinu kemur ekki jafnhratt fram í sveiflum á atvinnuleysi og áður. Í uppsveiflu er eftirspurn eftir starfsfólki í auknum mæli mætt með innflutningi vinnuafls og þegar kreppir að flytur aðflutt launafólk úr landi.

Atvinnuleysi hefur aukist frá því síðasta sumar. Það skýrist að hluta til af eðlilegum árstíðabundnum breytingum en þó er atvinnuleysi lítillega hærra en á sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi var 3,3% að meðaltali á síðasta ári og í nýlegri hagspá gerum við ráð fyrir að atvinnuleysi verði í kringum 4% allt fram til ársins 2026.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
14. nóv. 2024
Spáum vaxtalækkun um 0,5 prósentustig í næstu viku
Verðbólga hefur hjaðnað nokkuð kröftuglega á síðustu mánuðum og við spáum því að hún mælist 4,5% í nóvember. Loks má greina merki um hægari gang í neyslu heimilanna og íbúðaverð virðist vera á minna flugi en áður. Þá virðist eftirspurn eftir vinnuafli hafa minnkað auk þess sem hægt hefur á launahækkunum. Peningalegt aðhald hefur aukist statt og stöðugt og landsframleiðsla gæti orðið lítillega minni á þessu ári en því síðasta.
Epli
14. nóv. 2024
Spáum 4,5% verðbólgu í nóvember
Við spáum því að vísitala neysluverðs lækki um 0,13% á milli mánaða í nóvember og að verðbólga hjaðni úr 5,1% í 4,5%. Flugfargjöld til útlanda og reiknuð húsaleiga koma til lækkunar að þessu sinni, en húsnæði án reiknaðrar húsaleigu til hækkunar. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,5% í febrúar á næsta ári.
Selfoss
11. nóv. 2024
Vikubyrjun 11. nóvember 2024
Skráð atvinnuleysi hækkaði lítillega á milli ára í október og halli á vöruskiptajöfnuði jókst aðeins. Hagstofan birti þjóðhagsspá og bæði Seðlabanki Bandaríkjanna og Englandsbanki lækkuðu vexti. Í vikunni fáum við gögn um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll, niðurstöður úr væntingakönnun markaðsaðila og tölur um veltu greiðslukorta. Uppgjörstímabilið í Kauphöllinni heldur áfram.
Flutningaskip
8. nóv. 2024
Hægir á vexti vöruskiptahallans
Halli á vöruviðskiptum jókst lítillega á milli ára í október og mældist 49,4 ma.kr, en var 47,5 ma.kr. í október í fyrra. Uppsafnaður halli á vöruskiptum hefur aukist frá fyrra ári, en þó hægar í ár en síðustu ár, og var 330 ma.kr. í október, sem er einungis lítillega meira en mældist á sama tíma í fyrra þegar hann var 320 ma.kr.
Bílar
6. nóv. 2024
Minni spenna á vinnumarkaði en lítil breyting á atvinnuleysi
Staðan á vinnumarkaði hefur haldist merkilega stöðug í gegnum hraðar breytingar í hagkerfinu og þrátt fyrir vaxtahækkanir síðustu ára hefur atvinnuleysi lítið aukist. Þó eru vísbendingar um að eftirspurn eftir launafólki hafi minnkað og laun hækka ekki jafn hratt og áður. Óvissa hefur aukist lítillega síðustu daga vegna átaka á opinberum vinnumarkaði.
5. nóv. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - október 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Ferðamenn við Strokk
5. nóv. 2024
Ágætur þriðji fjórðungur í ferðaþjónustu
Ferðamönnum fjölgaði um tæplega prósent á þriðja ársfjórðungi, stærsta ferðaþjónustutímabili ársins, frá fyrra ári. Gistinóttum ferðamanna fækkaði hins vegar um tæpt prósent, en kortavelta á föstu verðlagi jókst um 2% á milli ára.
Fjölbýlishús
4. nóv. 2024
Þörf á íbúðum og ágætis uppbygging í kortunum 
Íbúðafjárfesting hefur færst í aukana, starfsfólki fjölgar sífellt í byggingarstarfsemi, velta í greininni hefur aukist síðustu árin og innflutningur á byggingarefni er í hæstu hæðum. Íbúðauppbygging virðist nokkuð kröftug, enda er þörfin brýn - kjarnafjölskyldum hefur fjölgað mun hraðar en íbúðum síðustu ár. 
Flutningaskip við Vestmannaeyjar
4. nóv. 2024
Vikubyrjun 4. nóvember 2024
Verðbólga lækkaði úr 5,4% niður í 5,1% í október, í samræmi við væntingar. Samhliða birtingu VNV tilkynnti Hagstofan að fyrirhugað kílómetragjald yrði tekið inn í vísitöluna. Í þessari viku birtir Vinnumálastofnum skráð atvinnuleysi í október, kosið verður um nýjan forseta í Bandaríkjunum, Seðlabanki Bandaríkjanna og Englandsbanki tilkynna um vaxtaákvarðanir og uppgjörstímabilið í Kauphöllinni er áfram í fullum gangi.
1. nóv. 2024
Fréttabréf Greiningardeildar 1. nóvember 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur