Launavísitalan hækkaði um 6,3% milli 2019 og 2020, kaupmáttur jókst um 3,4%

Í desember 2019 hækkaði launavísitalan um 0,3%, en þá var ársbreytingin 4,5% þannig að launaþróunin er öllu hraðari nú en þá var. Árshraði hækkunar launavísitölunnar jókst nær stöðugt á árinu 2020 og náði hámarki í nóvember þegar hann var 7,3%, eða 0,1% hærri en nú í desember.
Sé litið á samanburð ársmeðaltala launavísitölunnar hækkaði hún um 6,3% milli 2019 og 2020, sem er töluvert meira en var á milli áranna 2018 og 2019, þegar hækkunin nam um 4,9%. Segja má að launahækkunin milli 2018 og 2019 sé nokkuð úr korti miðað við síðustu ár en meðalhækkunin frá árinu 2014 er 7,4% á ári.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 3,6% milli desembermánaða 2019 og 2020. Launavísitalan hækkaði um 7,2% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára er áfram töluverð, eða 3,5%. Kaupmáttur launa er því áfram mikill í sögulegu samhengi, þrátt fyrir aukna verðbólgu á síðustu mánuðum. Kaupmáttarvísitala hefur haldið nokkuð vel síðustu mánuði og var kaupmáttur launa í desember einungis 0,1% minni en í apríl, þegar hann var í sögulegu hámarki.
Sé litið á meðalhækkun kaupmáttar á milli ára jókst hann um 3,4% milli 2019 og 2020. Það var öllu meira en á milli 2018 og 2019, þegar kaupmátturinn jókst um 3,4%. Kaupmáttur hefur aukist á hverju ári undanfarin ár og er meðalhækkunin frá 2014 4,8% á ári. Það má því segja að hækkunin á árinu 2019 hafi verið nokkuð úr korti miðað við hin árin.
Eins og staðan er núna er því miður líklegt að atvinnuleysi verði áfram mun meira en við eigum að venjast á næstu mánuðum. Það er ljóst að árangur næst ekki að neinu ráði í baráttunni við atvinnuleysið fyrr en landið opnast meira.
Ef horft er á launaþróun í fyrri kreppum má sjá að sú jákvæða launaþróun sem við sjáum nú er ekki beint í takt við slakan vinnumarkað. Atvinnuleysið er hins vegar mun meira.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Launavísitalan hækkaði um 6,3% milli 2019 og 2020, kaupmáttur jókst um 3,4%









