Launasumma og störf - ferðaþjónustan orðið langverst úti
Launasumman, þ.e. staðgreiðsluskyld laun allra á vinnumarkaði, hækkaði um 6,9% milli ára miðað við fyrri árshelming 2021. Launavísitalan hækkaði um 8,3% á sama tíma þannig að heildarlaunatekjur landsmanna hækkuðu minna en föst mánaðarlaun. Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,3% á sama tíma þannig að launasumman hefur hækkað um u.þ.b. 2,5% að raungildi.
Sé litið á þróun launasummunnar innan sex atvinnugreina á milli fyrri árshelminga 2020 og 2021 kemur alls ekki á óvart að ferðaþjónustan hefur mjög mikla sérstöðu. Launasumman í einkennandi greinum ferðaþjónustu lækkaði um rúm 25% á milli ára. Á hinum endanum eru opinber stjórnsýsla (með fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónustu) og heild- og smásala með 12% og 11% aukningu launasummu milli ára sé miðað við fyrstu sex mánuðina. Fyrir utan ferðaþjónustuna lækkar launasumman einungis í fjármála- og vátryggingarstarfsemi.
Sé litið á þróun launasummunnar yfir lengri tíma á verðlagi hvers árs sést ris og fall ferðaþjónustunnar greinilega. Sé miðað við árið 2015 héldust ferðaþjónustan og byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð í hendur fram til 2018/19. Eftir það dró úr vexti ferðaþjónustunnar á árinu 2019 og svo kom mikið fall bæði 2020 og 2021 sé litið á fyrri árshelming hvers árs. Byggingarstarfsemin jókst hins vegar fram til 2019 og hefur haldið stöðu sinni nokkuð síðan þá. Þetta er mikil breyting frá síðustu kreppu þegar byggingarstarfsemin hrundi nær algerlega.
Opinber stjórnsýsla, byggingarstarfsemi og heild- og smásala skera sig nokkuð úr meðal þessara greina hvað aukningu launasummunnar varðar.
Launafólki sem fékk staðgreiðsluskyldar greiðslur fyrstu sex mánuði 2021 fækkaði um 3,6% frá sama tíma 2020. Hér er sérstaða ferðaþjónustunnar enn meiri en varðandi launagreiðslurnar. Í ferðaþjónustunni fækkaði þeim sem fá staðgreiðsluskyldar greiðslur um tæp 33%, á meðan fækkunin í öðrum greinum er mjög lítil. Af þessum greinum fjölgar launafólki í byggingarstarfsemi, opinberri stjórnsýslu og sjávarútvegi. Fyrir utan byggingastarfsemi og ferðaþjónustu eru breytingarnar litlar.
Horft yfir lengri tíma er þróunin varðandi fjölda starfsfólks svipuð og var með launagreiðslurnar. Ferðaþjónusta og byggingarstarfsemi haldast nokkurn veginn í hendur fram til 2018. Þá skilur á milli og byggingarstarfsemin hefur haldið stöðu sinni síðan og vel það.
Opinbera stjórnsýslan er eina greinin þar sem nokkuð stöðug fjölgun hefur verið á starfsfólki allt tímabilið. Í fjármála- og vátryggingarstarfsemi og í sjávarútvegi hefur hins vegar verið nær stöðug fækkun allt tímabilið.
Sérstaða ferðaþjónustunnar hefur verið mikil hvað launasummu og fjölda starfa varðar og segja má að áhrif kreppunnar á aðrar greinar séu lítil miðað við stöðuna þar. Heild- og smásala hefur siglt nokkuð lygnan sjó, en hagræðing verið mikil í fjármálastarfsemi og sjávarútvegi. Byggingarstarfsemi og opinber stjórnsýsla hafa vaxið mest á tímabilinu.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Launasumma og störf - ferðaþjónustan orðið langverst úti