Kortavelta stóð í stað á milli ára í desember
Alls nam greiðslukortavelta heimila 110 mö.kr. í desember 2022 og var sú sama og í desember í fyrra, á föstu verðlagi. Samsetningin breyttist þó milli ára þar sem meira var verslað erlendis og minna innanlands. Á síðustu mánuðum hefur hægt á vexti veltunnar: aukningin nam 25% milli ára í apríl á síðasta ári, 13% í júní, 2% á síðustu tveimur mánuðum og nú stendur hún í stað.
Enn eykst kortavelta í útlöndum
Kortavelta Íslendinga innanlands nam samtals 90 mö.kr. og dróst saman um 3,6% milli ára miðað við fast verðlag. Frá því í byrjun sumars hefur mælst samdráttur á milli ára á neyslu Íslendinga innanlands (ef frá er talinn ágústmánuður) og í staðinn kaupir fólk meira í útlöndum. Kortavelta íslenskra heimila erlendis nam alls 20 mö.kr. í desember og jókst um 21% milli ára miðað við fast gengi. 82% af kortaveltu Íslendinga í desember var á Íslandi og 18% erlendis. Til samanburðar var hlutfallið 15% erlendis og 85% innanlands í desember í fyrra.
Kortavelta Íslendinga erlendis var 31% meiri í desember 2022 en í sama mánuði árið 2019, áður en faraldurinn skall á, á föstu gengi. Brottfarir Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli voru 42 þúsund í desember, 3% færri en í desember 2019. Því virðist hver Íslendingur eyða þó nokkuð meiri pening í útlöndum en árið 2019. Svo ber að hafa í huga að hluti af kortaveltu Íslendinga erlendis eru rafræn þjónustukaup, svo sem áskriftir að streymisveitum, sem fer fram þó svo að kaupandi sé ekki staddur erlendis.
Erlendir ferðamenn eyða meiru hér á landi en áður
Um 115 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í desember, 8% færri en í sama mánuði árið 2019, stuttu áður en faraldurinn skall á. Brottfarir í desember voru 16% færri en í sama mánuði á metferðamannaárinu 2018.
Erlendir ferðamenn eyddu 15,8 mö.kr. á Íslandi í desember 2022, 5% meiru en þeir gerðu í desember árið 2019, þótt ferðamenn hafi verið 8% færri en þá. Hér er miðað við fast verðlag hér á landi sem segir okkur hversu miklu ferðamenn eyða í íslenskum krónum, miðað við að íslensku verðlagi sé haldið föstu og endurspeglar því magnið sem fólk kaupir af vörum og þjónustu. Það má einnig skoða þróun í kortaveltu ferðamanna á föstu gengi, þ.e. hversu miklu þeir eyða í sinni eigin mynt. Á þann mælikvarða eyddu þeir 9% meiru nú í desember 2022 en í desember 2019. Ferðamenn virðast því gera betur við sig á Íslandi en árið 2019, rétt eins og Íslendingar í útlöndum.
Neikvæður kortaveltujöfnuður
Kortaveltujöfnuðurinn mældist neikvæður í desember líkt og í október og nóvember, þ.e.a.s. Íslendingar (heimili og fyrirtæki) greiddu meira með greiðslukortum erlendis en ferðamenn gerðu hér á landi. Alls nam úttekt erlendra debet- og kreditkorta hér á landi 15,8 mö.kr. í desember á meðan íslensk kortavelta (heimila og fyrirtækja) erlendis var 23 ma.kr. Hallinn er talsverður, rúmlega 7,2 ma.kr. Alls var 18, 7 ma.kr. halli á greiðslukortajöfnuði á síðustu þremur mánuðum ársins 2022. Þessi halli kemur til viðbótar við 108 ma. kr. halla á vöruviðskiptum (án skipa og flugvéla) á fjórða ársfjórðungi 2022. Það er því ljóst að það var verulegur halli á viðskiptum við útlönd á síðustu mánuðum ársins 2022 og hallinn er að okkar mati helsta ástæðan fyrir veikingu krónunnar undir lok síðasta árs.