Kortavelta enn drifin áfram í útlöndum
Greiðslukortavelta heimila nam 99 mö.kr. í nóvember og jókst um 2% milli ára að raunvirði sem er svipað og í október en miðað við mánuðina þar á undan hefur hægt talsvert á. Í ágúst jókst kortaveltan til að mynda um 15% og um 16% í maí. Aukningin milli ára í nóvember er öll komin til vegna aukinnar neyslu Íslendinga erlendis sem jókst um 26% að raunvirði.
Breytt neysluhegðun
Kortavelta Íslendinga innanlands nam samtals 78 mö.kr. og dróst saman um 3% milli ára miðað við fast verðlag. Frá því í byrjun sumars hefur mælst samdráttur milli ára á neyslu Íslendinga innanlands (ef frá er talinn ágústmánuður) og í staðinn kaupir fólk meira í útlöndum. Kortavelta íslenskra heimila erlendis nam alls 20,4 mö.kr. í nóvember og jókst um 26% milli ára miðað við fast gengi. Hún er 37% meiri, á föstu gengi, en í sama mánuði árið 2019, áður en faraldurinn skall á. Íslendingar virðast því enn vera á faraldsfæti og neyslan nokkuð mikil í útlöndum.
Það vekur þó athygli að brottfarir Íslendinga til útlanda voru 24% færri í nóvember á þessu ári en á sama tíma árið 2019, nú 34 þúsund talsins. Það er mikil breyting frá því sem verið hefur, en frá því í maí hafa brottfarir Íslendinga mælst að jafnaði 12% fleiri en á sama tíma 2019. Tölurnar ber þó að taka með fyrirvara um að talningar byggja á úrtaksmælingu gerðri á tímabilinu 16.-30. nóvember. Framkvæmdir í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli gerðu það að verkum að ekki var hægt að taka úrtak fyrri hluta mánaðarins. Tölurnar endurspegla engu að síður mat Ferðamálastofu á mánuðinum í heild.
Svo ber að hafa í huga að hluti af erlendri kortaveltu Íslendinga eru rafræn þjónustukaup, svo sem áskriftir að streymisveitum, sem fer ekki endilega fram erlendis.
Vísbendingar um hægari vöxt einkaneyslu
Í takt við hægari aukningu kortaveltu hefur hægt á aukningu í einkaneyslu. Einkaneysla jókst mun minna á þriðja ársfjórðungi þessa árs en öðrum, um 15% milli ára á öðrum ársfjórðungi en um 7% milli ára á þeim þriðja. Kaupmáttur tók að dragast lítillega saman í haust eftir samfellda aukningu í tólf ár, sé horft á breytingar milli ára og miðað við þróunina í kortaveltu í október og nóvember má gera ráð fyrir minni vexti einkaneyslu á fjórða ársfjórðungi en fyrri fjórðungum ársins.
Erlendir ferðamenn eyddu tæpum 17 mö.kr. á Íslandi í nóvember
Um 138 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í nóvember, 5% fleiri en í sama mánuði árið 2019, stuttu áður en faraldurinn skall á. Þetta var þriðji fjölmennasti nóvembermánuður frá upphafi. Á metárinu 2018 voru ferðamenn 8% fleiri í nóvember en nú.
Heimsóknir erlendra ferðamanna til Íslands hafa síðustu mánuði verið mjög nálægt fjöldanum sem var árið 2019 en heildarfjöldinn yfir árið verður minni vegna þeirra ferðatakmarkana sem enn voru í gildi í byrjun árs. Á þessu ári hafa um 1,6 milljónir erlendra farþega flogið frá Íslandi en á tímabilinu janúar-nóvember 2019 voru þeir tæpar 1,9 milljónir. Það var aðeins í júlí og nú í nóvember sem fjöldinn skreið yfir fjöldann á sama tíma 2019.
Fjöldinn yfir árið í heild verður líklega í kringum 1,7 milljónir, eins og við spáðum í október. Rúmlega helmingur brottfara í nóvember voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna og Breta, eða 56%. Fjölmennustu þjóðirnar þar á eftir voru Þjóðverjar, Frakkar, Pólverjar, Írar og Danir.
Erlendir ferðamenn eyddu 17 mö.kr. á Íslandi í nóvember. Þeir eyddu 8% meiru en þeir gerðu í nóvember árið 2019, áður en faraldurinn skall á. Hér er miðað við fast verðlag hér á landi sem segir okkur hversu miklu ferðamenn eyða í íslenskum krónum, miðað við að íslensku verðlagi sé haldið föstu og endurspeglar því magnið sem fólk kaupir af vörum og þjónustu. Það má einnig skoða þróun í kortaveltu ferðamanna á föstu gengi, þ.e. hversu miklu þeir eyða í sinni eigin mynt. Á þann mælikvarða eyddu þeir 15% meiru nú í nóvember en í nóvember 2019 og munurinn hefur verið svipaður síðustu mánuði. Ferðamenn virðast því gera betur við sig nú en árið 2019.
Neikvæður kortaveltujöfnuður
Kortaveltujöfnuðurinn hér á landi mældist neikvæður í nóvember líkt og í október, þ.e.a.s. Íslendingar (heimili og fyrirtæki) eyddu meiru erlendis en ferðamenn gerðu hér á landi. Alls nam úttekt erlendra debet- og kreditkorta 16,7 mö.kr. í nóvember á meðan íslensk kortavelta (heimila og fyrirtækja) erlendis var samtals 24 ma.kr. Hallinn nemur ríflega 7 mö.kr. sem er talsvert mikill halli og mun meiri en á sama tíma árið 2019 þegar hann var 2,7 ma.kr. Skýringin liggur einna helst í aukinni kortaveltu Íslendinga erlendis.