Jólavertíðin fór vel af stað – mikið verslað frá útlöndum
Seðlabanki Íslands birti fyrr í dag gögn um veltu innlendra greiðslukorta í nóvember. Samanlagt jókst kortavelta um 20% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 80 mö.kr. og jókst um tæp 10% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam 18,4 mö.kr. og jókst um 95% milli ára miðað við fast gengi. Sé miðað við nóvembermánuð 2019, áður en faraldurinn skall á, mælist aukning í kortaveltu upp á 14% að raunvirði. Innanlands mælist aukningin 16% og erlendis 5%.
Nóvembermánuður var veltumesti mánuður í kortanotkun Íslendinga erlendis síðan í júlí 2019. Brottfarir Íslendinga um Leifsstöð voru tæplega 34 þúsund, sem er áþekkt þeim fjölda sem sást í nóvember 2015. Kortaveltan er hins vegar nærri því tvöföld miðað við fast gengi. Þetta bendir til þess að þeir sem fara nú til útlanda gera talsvert betur við sig en áður, en einnig eru áhrif netverslunar hjá erlendum söluaðilum orðin mjög sterk. Stórir afsláttardagar í nóvember á borð við Black Friday og Cyber Monday hafa talsverð áhrif á netverslun Íslendinga í nóvember bæði innanlands og erlendis.
Þróun kortaveltu getur verið ágætis vísbending um þróun einkaneyslunnar. Við sjáum að kortavelta jókst um 11,5% milli ára á þriðja ársfjórðungi og einkaneysla um 6,1%. Í október og nóvember mælist aukning í kortaveltu samanlagt 22% milli ára að raunvirði. Verði aukningin svipuð milli ára í desember eru líkur á talsverðum vexti einkaneyslu á fjórða ársfjórðungi. Ómíkron-afbrigði veirunnar, sem kom til landsins um mánaðamótin síðustu, gæti þó haft áhrif á kortaveltu desembermánaðar, sérstaklega hvað viðkemur þjónustugeiranum, en vöxturinn í kortaveltu innanlands er nú aðallega drifinn áfram af auknum þjónustukaupum.
Við sjáum ekki merki þess að heimilin séu að fara fram úr sér í neyslu þó nú sjáist talsverður vöxtur í kortaveltu. Skattaívilnanir og stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa orðið til þess að kaupmáttur hefur haldist sterkur og skilar meiri sparnaður á mánuðum áður sér í aukinni neyslu nú.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Jólavertíðin fór vel af stað – mikið verslað frá útlöndum