Íbúðaverð lækkar í annað sinn á árinu – spáum ögn minni verðbólgu
Samkvæmt nýbirtum tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) lækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 0,3% milli október og nóvember. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem íbúðaverð lækkar milli mánaða, en síðast mældist lækkun í ágúst upp á 0,4% milli mánaða.
Mikið flökt milli mánaða
Mikið flökt hefur mælst á vísitölunni milli mánaða á allra síðustu mánuðum sem kann að endurspegla minni veltu og þar með eru færri samningar til grundvallar vísitölunni hverju sinni. Lækkunin nú kemur í kjölfar hækkana bæði í september og október upp á annars vegar 0,8% og hins vegar 0,6%. Þær hækkanir komu nokkuð á óvart þar sem flest benti til þess að markaðurinn væri farinn að róast. Lækkunin í nóvember er mögulega nokkurs konar leiðrétting á þeim hækkunum sem urðu á síðustu mánuðum. Breytingar milli einstakra mánaða geta verið mjög sveiflukenndar og því ber að varast að taka einstaka mælingar of hátíðlega. Það er hins vegar alveg ljóst að markaðurinn hefur kólnað töluvert frá miðju sumri og teljum við að kólnunin sé komin til að vera í þónokkurn tíma.
Verð á fjölbýli stóð nánast í stað milli mánaða, lækkaði einungis um 0,04% en verð á sérbýli lækkaði um 1,2%. Þetta er í fyrsta sinn síðan í nóvember 2019 sem bæði fjölbýli og sérbýli lækka milli mánaða. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 20,3% og lækkar fjórða mánuðinn í röð. 12 mánaða hækkun á verði fjölbýlis mælist 20,2% og sérbýlis 21,6%. Árstakturinn lækkar milli mánaða í báðum tilfellum.
Almennt verðlag án húsnæðis (VNV án húsnæðis) hækkaði um 0,06% milli mánaða í nóvember og lækkar raunverð íbúða því um tæplega 0,4% milli mánaða. Þetta er annan mánuðinn í röð sem raunverð íbúða lækkar, sem þýðir að á allra síðustu mánuðum hefur verð á húsnæði hækkað minna en verðlag almennt. Ef fram heldur sem horfir gæti húsnæði hætt að vera aðaldrifkraftur verðbólgunnar.
Verðbólguspáin breytist lítillega
Við þessa nýju mælingu HMS breytist nýjasta skammtímaverðbólguspáin okkar og hliðrast niður á við um 0,1 prósentustig. Í síðustu verðbólguspá gerðum við ráð fyrir að íbúðaverð myndi hækka lítillega, en ekki lækka eins og það gerði. Það vinnur hins vegar gegn hjöðnun verðbólgunnar að krónan er örlítið veikari en þegar við birtum spána.
Í stað 9,6% verðbólgu í desember gerum við nú ráð fyrir 9,5% en á morgun birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs fyrir mánuðinn. Við spáum því að verðbólgan hjaðni á næstu mánuðum og verði komin niður í 7,8% í mars á næsta ári.
Íbúðamarkaður farinn að róast
Stór þáttur í hjöðnun verðbólgunnar er rólegri íbúðamarkaður og nýjustu tölur benda til þess að markaðurinn sé farinn að róast. Færri kaupsamningar eru alla jafna undirritaðir nú og samkvæmt gögnum HMS seljast nú hlutfallslega færri íbúðir yfir ásettu verði. Saman bendir þetta til þess að eftirspurn sé farin að dragast saman sem kemur ekki á óvart eftir miklar vaxtahækkanir og hert lánþegaskilyrði.
Samkvæmt bráðabirgðatölum HMS voru 488 kaupsamningar undirritaðir í nóvember, en frá því í júlí hafa að jafnaði 484 samningar verið undirritaðir mánaðarlega sem er mikil breyting frá því sem verið hefur. Í fyrra voru að jafnaði 748 samningar undirritaðir mánaðarlega en meðaltalið í ár virðist stefna í ríflega 500 samninga mánaðarlega. Það er einnig nokkuð lægra en sást á árunum 2016-2019 þegar um 600 samningar voru alla jafnan undirritaðir mánaðarlega.