Íbúðaverð hækkar enn
Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,6% milli nóvember og desember. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,4% og verð á sérbýli um 1%. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 7,7% og hefur ekki verið hærri síðan í febrúar 2018.
Sé horft til breytingar á meðaltali vísitölunnar milli ára hækkaði íbúðaverð alls um 4,8% í fyrra, sem er nokkuð nálægt því sem við spáðum í október (4,5%) en talsvert ofar því sem við spáðum í vor (2%), þegar áhrif faraldursins á fasteignamarkað voru mun óljósari. Frá aldamótum hefur íbúðaverð að jafnaði hækkað um 9% á ári. Hækkunin í fyrra er því alls ekki mikil í sögulegu samhengi þó hún sé nokkur í ljósi þess að nú ríkir mikill efnahagssamdráttur.
Viðskipti hafa aukist verulega, eða um 14% að jafnaði milli ára, á síðustu 12 mánuðum. Við sáum síðast slíka veltuaukningu árið 2016 og þá fylgdi mikil verðhækkun í kjölfarið. Við höfum nú þegar séð íbúðaverð byrja að hækka hraðar og samkvæmt þessu gæti enn verið innistæða fyrir frekari hækkunum. Þessi tengsl eru þó ekki alltaf augljós og er því langt frá því að vera einfalt að spá fyrir um þróun verðlags út frá viðskiptum einum og sér, eða öfugt, enda margir aðrir þættir sem geta haft áhrif á þróun fasteignamarkaðarins.
Við sjáum þó fleiri vísbendingar um að spenna sé að aukast á íbúðamarkaði. Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hefur til að mynda aukist verulega á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallið mældist 22% undir lok síðasta árs en var til samanburðar 8% árið áður, samkvæmt gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Svona hátt hlutfall íbúða hefur ekki selst yfir ásettu verði síðan 2017.
Það er ljóst að fasteignamarkaðurinn kom nokkuð á óvart á síðasta ári. Þær vaxtalækkanir sem gripið var til, sem viðbragð við þeim efnahagsþrengingum sem faraldurinn olli, skiluðu sér í formi aukinnar eftirspurnar með tilheyrandi þrýstingi á verðlag. Meðan hagstæð lánskjör fást má gera ráð fyrir að þessi áhrif vari áfram þetta ár.