Í Evrópu fækkaði gistinóttum einna mest hér á landi
Gistinætur ferðamanna hér á landi námu alls tæplega 458 þúsund á öðrum og þriðja ársfjórðungi. Þeim fækkaði um 90,1% frá sama tímabili árið áður. Í hópi 27 Evrópulanda var einungis ein þjóð þar sem gistinóttum fækkaði meira. Það er Norður-Makedónía en þar fækkaði gistinóttum um 94,1%. Í þriðja sæti komu Spánverjar með 87,3% fækkun og frændur okkar Finnar komu þar skammt á eftir í fjórða sæti með 81,1% fækkun. Næsta Norðurlandaþjóð þar á eftir var Svíþjóð með 82,3% fækkun. Síðan komu Norðmenn með 80,3% fækkun og Danmörk með 65%. Meðalfækkunin hjá þessum 27 þjóðum var 72,4% á milli þessara tímabila. Í einu af þessum löndum mældist aukning en það var í Austurríki þar sem gistinóttum fjölgaði um 7,3%. Þetta kann að skýrast af rýmri sóttvarnarreglum en annars staðar. Í Króatíu var fækkunin minnst eða 57,2%. Þar á eftir kom Lúxemborg með 58,5% og Holland með 60%. Ástæðan fyrir meiri fækkun gistinótta hér á landi en að meðaltali í öðrum löndum liggur m.a. í því að hingað verður ekki komið akandi eða með annars konar fararmáta á landi.