Samantekt
VNV hækkaði um 0,11% milli mánaða í desember og mælist verðbólgan nú 2,0% samanborið við 2,7% í nóvember. VNV án húsnæðis hækkaði um 0,27% milli mánaða og mælist 1,7% verðbólga á þann mælikvarða.
Óhætt er að segja að þessi mæling hafi komið á óvart en opinberar spár lágu á bilinu 0,4% til 0,5% hækkun. Við höfðum spáð 0,4% hækkun. Skýrist munur á spá okkar og mælingu Hagstofu á því að flugfargjöld hækkuðu minna en við áttum von á ásamt því að matarkarfan og reiknuð húsaleiga lækkuðu milli mánaða. Við höfðum spáð því að þessir tveir liðir myndu hækka milli mánaða.