Samantekt
Nokkrir aðilar, þar á meðal Hagfræðideild Landsbankans, birta reglulega verðbólgu- og þjóðhagsspár fyrir Ísland. Spár Seðlabankans eru notaðar til grundvallar vaxtaákvarðana Peningastefnunefndar, spár Hagstofunnar eru notaðar til grundvallar fjárlögum og áætlana opinberra stofnana og spár Landsbankans eru m.a. notaðar við áætlanagerð í bankanum og eru birtar opinberlega. Þessar þrjár spár eru því mikilvægastar fyrir lesendahóp okkar.
Árin 2012 til 2018 mældist samfelldur hagvöxtur hér á landi. Meðalhagvöxtur yfir þetta sjö ára tímabil var samkvæmt þjóðhagsreikningum 4,0%. Ef við skoðum spár þessara þriggja aðila fyrir árin 2012 til 2018 sem birtar voru á 4. ársfjórðungi árið á undan hvert ár sést að fjögur af þessum sjö árum vanspáðu allir þrír spáaðilarnir hagvexti næsta árs. Að meðaltali var spáð 0,7 prósentum minni hagvexti fyrir þessi 7 ár en mældur hagvöxtur reyndist.
Verðbólgan fór niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands í febrúar 2014 og hélst þar út árið 2017. Ársverðbólga var við eða undir 2,0% þessi fjögur ár. Enginn aðilanna þriggja spáði fyrir um þetta, en öll fimm árin spáðum við, Seðlabankinn og Hagstofan að verðbólga yrði yfir markmiði í spánum sem þeir birtu á 4. ársfj. árið áður.