Hagsjá: Sterkur vinnumarkaður á undanhaldi – atvinnuleysi eykst
Samantekt
Nýjustu niðurstöður vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar eru frá því í febrúar, þ.e. áður en nýjustu áföll dundu yfir vinnumarkaðinn. Samkvæmt niðurstöðum Hagstofunnar er áætlað að 200.700 manns hafi verið á vinnumarkaði í febrúar 2019, sem jafngildir 79% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 194.000 starfandi og 6.700 atvinnulausir. Atvinnuleysi var því 3,3% af mannafla, sem var mun meira en mánuðina þar á undan. Starfandi fólk var tæplega tvö þúsund fleira nú í febrúar en í febrúar 2018 og hafði fækkað um rúm sjö þúsund frá janúar 2019. Vinnuaflið dróst saman um tæplega sjö þúsund á milli janúar og febrúar.
Atvinnuþátttaka í febrúar var 79% en var 79,3% í janúar 2018, þannig að atvinnuþátttaka minnkaði um 0,3 prósentustig milli ára. Sé litið á 12 mánaða meðaltal dróst atvinnuþátttaka saman um eitt prósentustig frá febrúar 2018 til sama tíma 2019. Á þennan mælikvarða er atvinnuþátttaka nú svipuð og var í upphafi ársins 2015. Þá tók hún að aukast mikið en dróst síðan saman aftur á síðasta ári.
Vikulegar vinnustundir voru að jafnaði 37,2 stundir í janúar og hafði fækkað um 1,3 stundir á einu ári frá febrúar 2018. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn í janúar 0,1 stund styttri en var í febrúar 2018 og hefur hann verið mjög stöðugur á þann mælikvarða allt síðasta ár.
Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman jókst vinnuaflsnotkun nær samfellt á árinu 2018. Aukningin milli ára var mikil frá ágúst til nóvember, nokkuð minni í desember, en jókst svo aftur í janúar 2019. Vinnuaflsnotkun minnkaði hins vegar verulega í febrúar miðað við febrúar árið áður, eða um 2,4%. Skýringuna á því er aðallega að finna í styttingu vinnutíma um 3,4% milli ára. Febrúar er þriðji mánuðurinn í röð sem vinnutími styttist milli ára. Aukning vinnuaflsnotkunar, eða fjölda unninna vinnustunda, er jafnan talin merki um gott gengi í hagkerfinu og virðist þessi stærð þegar hafa stefnt niður á við í febrúar. Sé litið á breytinguna milli febrúarmánaða 2018 og 2019 minnkaði vinnuaflsnotkun um 3,5%. Fjöldi starfandi jókst um 0,9% milli ára, en vinnustundum fækkaði um 3,4%.
Hér á landi eru til tvær mælingar á atvinnuleysi, hjá Hagstofu Íslands og hjá Vinnumálastofnun. Þessar mælingar eru ólíkar og gefa því mismunandi niðurstöðu. Niðurstöður Hagstofunnar byggja á mánaðarlegri úrtakskönnun þar sem fólk er spurt um stöðu sína. Tölur Vinnumálastofnunar sýna hversu margir eru skráðir atvinnulausir og njóta atvinnuleysisbóta. Tölur Hagstofunnar eru oftast hærri hvað fjölda varðar og í þeim eru líka mun meiri sveiflur milli mánaða. Á árinu 2017 var meðalatvinnuleysi í hverjum mánuði samkvæmt tölum Hagstofunnar 5.567 manns en 4.171 samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Samsvarandi tölur fyrir 2018 voru 5.600 hjá Hagstofunni og 4.643 hjá Vinnumálastofnun. Á árinu 2017 voru tölur Hagstofunnar 33% hærri en hjá Vinnumálastofnun en um 20% hærri 2018. Ætla má að munurinn á þessum tveimur aðferðum minnki eftir því sem skráða atvinnuleysið eykst.
Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hefur atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar verið nokkuð stöðugt í næstum tvö ár. Tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi hafa hins vegar hækkað nokkuð á síðustu mánuðum. Skráð atvinnuleysi var þannig 3,1% nú í febrúar samanborið við 2,1% í febrúar 2018. Í febrúar voru 6.157 manns á atvinnuleysisskrá sem þýddi 3,1% atvinnuleysi. Búist er við fjölda uppsagna í tengslum við gjaldþrot WOW air, og samkvæmt Vinnumálastofnun er talið að alls hafi um 1.600 manns fengið uppsagnarbréf í marsmánuði. Færu þeir allir á atvinnuleysisskrá myndi skráð atvinnuleysi strax fara upp í kringum 4%. Það er nokkuð ljóst að mikil óvissa um framgang kjarasamninga hefur haft áhrif á væntingar og stöðu mála á vinnumarkaði. Við óvissuna hafa síðan bæst ýmis neikvæð tíðindi eins og loðnubrestur, erfiðleikar á byggingamarkaði og gjaldþrot WOW air. Verði nýgerðir kjarasamningar samþykktir hverfur sú óvissa, en þá á eftir að sjá hver áhrif samninganna verða á stöðu fyrirtækjanna og atvinnustig.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Sterkur vinnumarkaður á undanhaldi – atvinnuleysi eykst (PDF)