Hagsjá: Ríkisreikningur 2017 – miklar breytingar á framsetningu
Samantekt
Fjársýsla ríkisins birti nýlega ríkisreikning fyrir árið 2017 og er hann nú í fyrsta sinn í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Lögin byggja meðal annars á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrir opinbera aðila. Þá er árið 2017 fyrsta árið í langan tíma þar sem einskiptis- og óreglulegir liðir hafa ekki veruleg áhrif á rekstarniðurstöðu ríkissjóðs.
Fram til þessa hafa fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum verið gjaldfærðar að fullu við kaup. Mikilvægar eignir ríkisins eins og fasteignir, vegakerfið, flugvélar, skip og stærri tæki hafa til þessa ekki verið sýndar í efnahagsreikningi. Hér eftir munu slíkar fjárfestingar verða færðar í efnahagsreikning við kaup og eignirnar síðan afskrifaðar yfir áætlaðan líftíma þeirra. Hér eftir mun efnahagsreikningur ríkissjóðs því gefa mun betri heildarmynd af eignum ríkissjóðs. Samkvæmt ríkisreikningi námu heildareignir í árslok 2017 alls 2.157 ma. kr., skuldir 1.661 ma.kr og eigið fé 496 ma. kr.
Skuldastaða ríkissjóðs var orðin vel ásættanleg á árunum fyrir 2008, en á árunum þar á eftir jukust skuldir ríkisins mikið. Heildarskuldir ríkissjóðs eins og þær birtast í efnahagsreikningi voru um síðustu áramót um 1.661 ma. kr., og höfðu lækkað um 11,2% milli ára að nafnvirði.
Lækkun skulda kemur að mestu leyti til vegna lækkunar langtímaskulda um u.þ.b. 23% milli ára. Skammtímaskuldir jukust reyndar á árinu, en þar er um mun lægri upphæð að ræða. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar aukast um 1,3% sem er mun minna en árin á undan. Lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um rúm 20% milli áranna 2015 og 2016 og um 17% árið þar á undan. Þessar hækkanir komu fyrst og fremst til vegna mikilla launahækkana á árunum 2015 og 2016. Vegna mikils hagvaxtar á síðustu árum hafa skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkað verulega.
Samkvæmt ríkisreikningi var rekstrarafkoman á árinu 2017 jákvæð um 39 ma. kr. Útgjöld ríkisins hafa aukist nokkuð hratt á síðustu árum í takt við auknar tekjur og bætta stöðu ríkissjóðs. Það er jafnframt ólíklegt að álíka útgjaldavöxtur sé sjálfbær á næstu árum.
Útgjöld til málefnasviða að frádregnum rekstrartekjum voru um 764 ma. kr. á árinu 2017. Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar var langstærsti útgjaldaliðurinn en af eiginlegum útgjaldasviðum fór mest til sjúkrahúsaþjónustu, um 74 ma. kr. Næst stærsti útgjaldaliðurinn var málefni aldraðra, 67 ma. kr. Heilbrigðistengdu liðirnir; sjúkrahúsþjónusta, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa og hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta, námu samtals um 156 mö.kr., eða um 20% af útgjöldum ríkissjóðs.
Eins og áður segir nam starfsmannakostnaður A-hluta ríkissjóðs 237 mö.kr. á árinu 2017. Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var um 17.100. Það þýðir að heildarkostnaður pr. starfsmann á mánuði var að meðaltali um 1.150 þús. kr. Sé þessi kostnaður borinn saman við tvo banka í eigu ríkisins kemur í ljós að kostnaðurinn við hvern starfsmann Landsbankans er eilítið lægri en hjá A-hluta ríkissjóðs og kostnaður pr. starfsmann Íslandsbanka eilítið hærri. Munurinn er þó ekki mikill.
Þær breytingar sem gerðar hafa verið á uppgjöri ríkisins eru vafalaust til bóta. Þær auka yfirsýn og einfalda allan samanburð. Mikilvægt er að ljúka því starfi sem fyrst að hægt sé að bera afkomu ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi saman við niðurstöðu fjárlaga.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Ríkisreikningur 2017 – miklar breytingar á framsetningu (PDF)