Hagsjá: Nú reynir á vinnumarkaðsyfirvöld og kerfi líkt og árið 2008
Samantekt
Eins og fjallað hefur verið um í Hagsjám undanfarið hefur atvinnuleysi aukist mikið á síðustu mánuðum. Þannig var skráð atvinnuleysi 5,0% að meðaltali á landinu öllu í febrúar og 9,1% á Suðurnesjum.
Atburðir síðustu daga eru nokkuð einstæðir í sögunni og áhrifin á vinnumarkað eiga eftir að vera veruleg. Ljóst er að mörg fyrirtæki muni huga að uppsögnum starfsmanna og þá kemur mikið til kasta vinnumarkaðsyfirvalda og þess öryggisnets sem við höfum byggt upp á síðustu áratugum.
Þessi staða á vinnumarkaði minnir töluvert á ástandið hér á landi á árinu 2008 þegar fjármálakerfið hrundi til grunna með víðtækum afleiðingum fyrir fyrirtæki og launafólk. Í upphafi ársins 2008 var skráð atvinnuleysi í sögulegu lágmarki, 1%, og var einungis 1,3% í september. Þá fóru hörmungarnar að dynja yfir og atvinnuleysið var 3,3% í nóvember og 4,8% í desember, eða jafn mikið og það var nú í janúar 2020.
Í nóvember 2008 voru samþykkt lög frá Alþingi um breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Breytingarnar gengu út á að reyna að viðhalda ráðningarsambandi sem flestra launþega í stað þess að til mikilla uppsagna kæmi. Þannig voru opnaðir möguleikar fyrir launafólk að fara í lægra starfshlutfall og geta þá fengið bætur á móti launum án þess að tekjurnar hefðu áhrif til lækkunar bótafjárhæðar.
Þessu til viðbótar fengu sjálfstætt starfandi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta ef þeir höfðu tilkynnt skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sem leiddi til tímabundins atvinnuleysis.
Margir nýttu sér þessi lagaákvæði á árinu 2009 og voru á milli 1.300 og 2.200 einstaklingar í hlutastörfum og á milli 600 og 1.300 sjálfstætt starfandi í hverjum mánuði sem þáðu bætur vegna samdráttar í rekstri. Meðalfjöldi einstaklinga sem fékk hlutabætur á móti skerðingu var um 1.700 og meðalfjöldi sjálfstætt starfandi var um 950. Samanlagt voru það því að meðaltali 2.650 einstaklingar sem nutu þessa úrræðis. Nú í lok janúar voru tæplega 9.800 manns á atvinnuleysisskrá þannig að ljóst er að aðgerðir af þessu tagi geta skipt verulegu máli. Nú þegar er komið fram frumvarp um álíka aðgerðir.
Lög um atvinnuleysistryggingar tóku gildi 1956 og þá tók Atvinnuleysistryggingasjóður til starfa. Þetta kerfi hefur þróast mikið síðan og árið 1997 tók Vinnumálastofnun til starfa. Vinnumálastofnun hefur síðan séð um skráningu atvinnulausra og samræmingu vinnumiðlunar, vinnumarkaðsaðgerða og úrræða sem miða að því að bæta stöðu fólks við atvinnuleit.
Mikið mæddi á vinnumarkaðsyfirvöldum á árinu 2008 og ljóst er að álagið verður ekki minna nú. Margt virðist vera á döfinni og þar má nefna álíka möguleika og voru notaðir á árinu 2008 þar sem áhersla var lögð á að slíta ekki ráðningarsambandi við fólk þegar útlit er fyrir að aðsteðjandi vandamál verði hugsanlega tímabundin.
Atvinnuleysistryggingasjóður hefur tekjur af tryggingagjaldi sem lagt er á atvinnulífið til að standa undir greiðslum atvinnuleysisbóta. Gjaldið var hækkað mikið í kjölfar áfallanna á árinu 2008 en hefur verið lækkað nokkuð síðan. Það er þó enn hærra en það var fyrir hrun og hafa stjórnvöld orðið fyrir töluverðri gagnrýni á undanförnum árum fyrir að lækka gjaldið ekki hraðar og meira.
Atvinnuleysið sem hófst á árinu 2008 bitnaði mest á fólki úr fjármálageiranum og í byggingarstarfsemi. Fækkun starfa í þeim greinum var veruleg á næstu misserum þar á eftir. Nú er nokkuð ljóst að það verða hinar ýmsu greinar ferðaþjónustu sem verða einna verst úti, sbr. umfjöllun í nýlegri Hagsjá.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Nú reynir á vinnumarkaðsyfirvöld og kerfi líkt og árið 2008 (PDF)