Samantekt
Afgangurinn af viðskiptajöfnuði við útlönd á 3. ársfjórðungi var 68 ma. kr. Þetta er næstmesti afgangur sem mælst hefur, en mesti afgangurinn mældist einnig á 3. ársfjórðungi árið 2016.
Frá því að núverandi uppgangur ferðaþjónustu hófst hefur afgangurinn á 3. ársfjórðungi hvers árs jafnan verið mestur. Samfelld gögn Seðlabankans yfir viðskiptajöfnuð ná aftur til ársins 1995. Þeir fimm fjórðungar þar sem afgangurinn var mestur frá árinu 1995 eru 3. ársfjórðungur hvers árs síðustu 5 ár.
Viðskiptajöfnuður við útlönd er nú jákvæður 14. fjórðungurinn í röð, en seinast mældist halli á 1. ársfjórðungi ársins 2014. Uppsafnaður afgangur á þessum 14 fjórðungum er um 480 ma. kr.
Þetta er veruleg og jákvæð breyting frá því sem áður var, en allt fram til ársins 2012 var jákvæður viðskiptajöfnuður algjör undantekning. Áratugina fyrir 2012 var þjóðarbúið rekið með nær krónískum viðskiptahalla.