Hagsjá: Miklar sviptingar í heilbrigðis- og menntamálum á síðustu árum
Samantekt
Atvinnuvegafjárfesting án stóriðju í hámarki
Á árinu 2017 námu útgjöld til heilbrigðis- og fræðslumála um 60% af samneyslu þjóðarinnar. Hlutur hvors málaflokks um sig var í kringum 30% af samneyslu ársins. Í fyrra var hlutfall heilbrigðismála af vergri landsframleiðslu (VLF) 7,2% og hlutur fræðslumála 6,7%. Þessar tölur hafa sveiflast töluvert á síðustu árum. Þannig fór hlutfall heilbrigðismála hæst upp í 8,2% af VLF á árinu 2003 og féll svo niður fyrir 7% á árinu 2011. Hlutfallið hefur verið í kringum 7% síðan og fór upp í 7,2% í fyrra. Meðalhlutfall tímabilsins frá 1998 til 2017 var 7,3%, en var mun hærra á fyrri hluta tímabilsins en því síðara.
Hlutur fræðslumála jókst mikið frá 1998 til 2002 og var stærstur á árunum 2002 til 2006, um 7,5%. Hlutfallið lækkaði stöðugt frá árinu 2009 fram til síðasta árs, þegar það var 6,7%. Meðalhlutfall alls tímabilsins var 7,1%.
Sé litið til samneyslunnar fór hlutur heilbrigðismála af samneyslu hæst í rúm 35% á árinu 2009, lækkaði svo niður í rúm 28% á árinu 2011, en hefur síðan hækkað og var 31% í fyrra. Hlutur fræðslumála fór hækkandi upp í 32% árið 2006, en lækkaði niður í 28% á árinu 2012 og er nú kominn upp í 29%. Sé litið á sameiginlega hlutdeild þessara tveggja mikilvægu málaflokka af samneyslunni var hann hæstur rúmlega 65% á árinu 2009. Hlutfallið var nokkuð stöðugt frá 2001 til 2005 þegar það tók að lækka stöðugt fram til 2012. Síðan hefur það farið hækkandi og var um 60% í fyrra.
Á síðustu 20 árum hafa útgjöld á mann til þessara tveggja málaflokka bæði hækkað og lækkað. Í báðum tilvikum voru útgjöld á mann hæst á árinu 2008 og lækkuðu mikið á árunum þar á eftir. Sé litið á staðvirt útgjöld á mann voru þau lægst í báðum málaflokkum á árinu 1998, um 480 þúsund á mann vegna heilbrigðismála og um 440 þúsund til fræðslumála. Útgjöldin voru svo svipuð til beggja málaflokka á árinu 2008, um 570 þúsund á mann. Þau féllu svo niður í 485 þúsund fyrir báða málaflokka á árinu 2012. Síðan hafa útgjöld á mann vegna heilbrigðismála hækkað stöðugt og voru um 535 þúsund á mann í fyrra. Útgjöld til fræðslumála hækkuðu eilítið milli áranna 2013 og 2014 en hafa síðan staðið í stað. Útgjöld á mann til heilbrigðismála hafa þannig hækkað um rúm 10% að raunvirði frá 2012 en einungis um 3% til fræðslumála.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Miklar sviptingar í heilbrigðis- og menntamálum á síðustu árum (PDF)