Hagsjá: Leiguverð íbúðarhúsnæðis hækkar meira en kaupverð
Samantekt
Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 1,4% milli september og október. Leiguverð hefur hækkað um 9,6% á síðustu 12 mánuðum á sama tíma og kaupverð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 4,1%. Leiguverð og kaupverð fjölbýlis þróuðust með svipuðum hætti frá upphafi ársins 2011 fram á árið 2016. Þá tók kaupverð að hækka mun meira og hélt sú þróun áfram allt fram til sumars 2017. Þannig hækkaði leiguverð um 70% frá upphafi ársins 2011 fram til júní 2017 á meðan kaupverð fjölbýlis hækkaði um 97%. Frá júní 2017 hefur leiguverð hins vegar hækkað um 12,9% á meðan kaupverð hækkaði um 5,3%. Það er því verulegur munur á þessum tveim tímabilum.
Ef litið er á leiguverð 2ja og 3ja herbergja íbúða í vestur- og austurhluta Reykjavíkur auk Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar í mánuðunum ágúst, september og október kemur í ljós að leiga á fermetra er hærri í Reykjavík en hinum sveitarfélögunum og í öllum tilvikum er leiga fyrir hvern fermetra í 2ja herbergja íbúð hærri en fyrir 3ja herbergja. Meðalleiguverð fyrir tveggja herbergja íbúð á þessum svæðum var kr. 2.925 á m2 á þessum tíma og kr. 2.532 á m2 fyrir 3ja herbergja íbúð. Í tölunum fyrir október var meðalstærð 2ja herbergja íbúða 60 m2 og þriggja herbergja 84 m2. Það þýðir að meðalleiguverð 2ja herbergja íbúða á þessum tíma var um 175 þús.kr. á mánuði og meðalleiguverð 3ja herbergja íbúða m 213 þús.kr. á mánuði.
Innkoma leigufyrirtækja hefur gerbreytt leigumarkaði hér á landi á síðustu árum. Það sjónarmið hefur komið fram að innkoma leigufélaganna hafi stuðlað að meiri hækkun leiguverðs en ella. Þjóðskrá birtir ekki þróun leiguverðs út frá tegund leigusala. Þjóðskrá gefur hins vegar árlega út tölur um ávöxtun húsaleigu þar sem greint er á milli þess hvort leigusali sé fyrirtæki eða einstaklingur. Ávöxtunin er fundin með samanburði á leiguverði og stærð íbúða þeirra húsaleigusamninga sem koma til þinglýsingar.
Sé áfram litið á þróunina í þessum fjórum hverfum má sjá að ávöxtunin hefur jafnan verið meiri á útleigu 2ja herbergja íbúða en 3ja herbergja. Allt frá árinu 2015 hefur ávöxtun fyrirtækja verið betri en einstaklinga af útleigu 3ja herbergja íbúða en munurinn hefur minnkað og nemur nú 0,3 prósentustigum. Sé litið á ávöxtun af útleigu 3ja herbergja íbúða má sjá að hún hefur næstum verið sú sama hjá einstaklingum og fyrirtækjum allt tímabilið fram til ársins 2017. Á árinu 2018 dró í sundur og ávöxtun fyrirtækjanna varð 0,5% betri.
Tölurnar um ávöxtun hér að framan benda ekki til þess að fyrirtæki sem leigja út íbúðarhúsnæði hafi hækkað leiguverð á síðustu árum meira en einstaklingar sem leigja út. Nokkur munur myndaðist á ávöxtun húsaleigu 2ja herbergja íbúða eftir árið 2015, en hann hefur minnkað mikið. Á síðasta ári jókst ávöxtun fyrirtækja af útleigu 3ja herbergja íbúða á sama tíma og ávöxtun einstaklinga minnkaði. Munur á ávöxtun er lítill á milli þessara tveggja tegunda leigusala og jafnan innan við 1 prósentustig. Ávöxtun fyrirtækja af útleigu íbúða er ekki mikið meiri en einstaklinga og því hæpið að halda því fram að fyrirtæki hafi hækkað leiguverð meira en einstaklingar á síðustu árum. Það er að sama skapi ljóst að ávöxtun af útleigu íbúðarhúsnæðis hefur minnkað mikið á síðustu árum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Leiguverð íbúðarhúsnæðis hækkar meira en kaupverð (PDF)