Launaþróun á Íslandi hefur töluverða sérstöðu miðað við nálægar þjóðir
Í júlí 2021 hafði launavísitalan hækkað um 7,8% yfir 12 mánaða tímabil. Þetta er mikil hækkun, t.d. miðað við að hagkerfið hefur verið í miklum öldudal. Umræða um launamál hér á landi byggir mikið á launavísitölunni, en hún er tiltölulega þröngt hugtak. Launavísitalan mælir þannig breytingu á launum fyrir ákveðna tímaeiningu fyrir sama hóp á tveimur tímabilum. Þættir eins og vinnutími, samsetning vinnuafls o.s.frv. eru því ekki mældir með launavísitölu.
OECD gefur út tölur um meðallaun allra fullvinnandi á vinnumarkaði sem eru betri vísbending um tekjuþróun en launavísitalan og eiga að vera nokkuð sambærilegar á milli landa.
Sé litið á tímabilið frá 2000 til 2020 má t.d. sjá að meðallaun á Íslandi hafa hækkað um 204% í íslenskum krónum. Þetta er mun meiri hækkun en í nálægum löndum, en næsta ríki í röðinni er Noregur með 114% hækkun í norskum krónum. Meðalhækkun hinna Norðurlandanna er 81% á móti 204% hjá okkur. Meðallaun á Íslandi hafa þannig að meðaltali hækkað um 5,8% á ári á þessum 20 árum á meðan þau hafa hækkað að meðaltali um 3% á ári á hinum Norðurlöndunum.
Sé litið á mestu og minnstu árlegar breytingar kemur í ljós að Ísland skorar hæst í báðum tilvikum. Tekjur hækkuðu um 12,9% hér á landi á árinu 2006 og lækkuðu um 15,4% á árinu 2009. Írland kemur næst okkur hvað mestu árshækkun varðar, en engin þjóð nálgast okkur með mestu árslækkun.
Sé samanburðurinn gerður í sömu mynt, sem er Bandaríkjadollarar hjá OECD, verður myndin töluvert önnur. Eins og við vitum eru sveiflur í gengi meiri hér á landi en víðast hvar annars staðar og því breytir umreikningur í dollara miklu. Meðalbreyting á ári í dollurum á þessu tímabili var einungis 1,3% og erum við í fjórða sæti þar meðal þeirra þjóða sem þessi sambanburður nær til. Launabreytingar voru þannig meiri í bæði Noregi og Svíþjóð en hér á þessu tímabili reiknað í dollurum.
Á árinu 2020 voru ársmeðallaun hér á landi um 67.500 dollarar og voru þau 16% hærri en í Danmörku þar sem launin voru næst hæst á Norðurlöndunum. Af þeim löndum sem hér eru skoðuð voru launin einungis hærri í Bandaríkjunum og Lúxemborg, en þessi tvö lönd og Ísland eru í nokkrum sérflokki.
Sveiflur í tekjum eru mun meiri hér á landi en annars staðar sé mælt á föstu verðlagi og í sama gjaldmiðli. Á milli 2000 og 2020 hækkuðu meðallaun á hinum Norðurlöndunum að meðaltali um 31% á meðan þau hækkuðu um 25% á Íslandi. Leiðin á milli þessara tveggja tímapunkta var hins vegar mjög mismunandi. Þróun meðallauna á hinum Norðurlöndunum var stöðug upp á við allan tímann en hér var þróunin mun óreglulegri með miklum hækkunum og lækkunum. Þannig fóru meðallaunin niður um 7,5% frá upphafsstöðu á árinu 2009 og upp í 135% á árinu 2018, en hafa lækkað síðan.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Launaþróun á Íslandi hefur töluverða sérstöðu miðað við nálægar þjóðir