Hagvöxtur á fyrri árshelmingi nam 3,5%, alfarið borinn af vextinum á öðrum ársfjórðungi þar sem hagvöxtur var neikvæður um 0,2% á fyrsta fjórðungi. Spá okkar fyrir hagvöxt yfir árið í heild, sem við birtum í maí, gerir ráð fyrir 4,9% hagvexti á þessu ári. Sú spá gerði ráð fyrir að hagvöxtur á seinni árshelmingi yrði töluvert meiri en á þeim fyrri, eftir því sem komum erlendra ferðamanna myndu fjölga.
Vöxturinn á öðrum fjórðungi var mjög kröftugur fyrir flesta undirliði þjóðhagsreikninga. Það skýrist að umtalsverðu leyti af grunnáhrifum vegna mikils samdráttar á öðrum fjórðungi í fyrra. Þrír meginþættir stóðu á bak við hagvöxt annars fjórðungs. Veigamest voru áhrif útflutnings en framlag hans til hagvaxtar var jákvætt um 9,1%. Framlag fjármunamyndunar var 5,6% og framlag einkaneyslu var 4,5%. Það sem vó hins vegar á móti auknum hagvexti var mikill vöxtur í innflutningi en framlag hans til hagvaxtar var neikvætt um 11,3%.