Samantekt
Velta innlendra greiðslukorta jókst um 2,4% að raunvirði milli ára í nóvember. Velta í verslunum hér á landi jókst um 2,1% milli ára miðað við fast verðlag og 3,6% í viðskiptum erlendis miðað við fast gengi.
Kortavelta erlendis eykst á sama tíma og utanlandsferðum fækkar sem vekur athygli. Ef til vill eru Íslendingar duglegri nú en oft áður að nýta sér erlendar netverslanir og láta senda heim fyrir jólin. Stórir afsláttardagar á borð við „Singles' day“ og „Black Friday“ hafa notið vinsælda erlendis, jafnt sem innanlands, og hrundið af stað jólaverslun margra í nóvember. Gæti það hafa ýtt undir verslunargleði Íslendinga sem var ögn meiri í nóvember í ár en í fyrra.
Líkt og við greindum frá í síðasta mánuði voru ýmis teikn á lofti um að kraftur gæti færst í einkaneyslu á seinni hluta árs. Velta smásöluverslana hafði aukist talsvert í júlí og ágúst, ásamt því sem innflutningur á neysluvörum í september var meiri en í fyrri mánuðum ársins. Það reyndist vera réttmætur grunur því einkaneysla jókst um 2,1% milli ára á þriðja ársfjórðungi, sem var meiri vöxtur en á öðrum ársfjórðungi, þegar hann mældist 1,6%.
Þó þetta sé lítill vöxtur samanborið við síðustu ár, er þetta engu að síður vöxtur og þar að auki meiri en á síðasta ársfjórðungi. Vísbendingar eru því um að staðan sé að mörgu leyti nokkuð góð og útlit fyrir ágætis jólavertíð kaupmanna.