Hagsjá: Íbúðaverð hækkaði í febrúar, en horfur næstu mánaða óljósar
Samantekt
Í febrúar hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,5% milli mánaða. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,5% og verð á sérbýli um 0,7%. Hækkunin er mjög áþekk því sem mældist milli mánaða í janúar.
Vísbendingar eru um að framboð nýrra íbúða sé meira nú en nokkru sinni fyrr. Í fyrra jókst íbúðafjárfesting um 31% milli ára samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands, sem er mun meiri vöxtur en hefur sést á síðustu árum. Samkvæmt gögnum Þjóðskrár bættust 3.299 nýjar íbúðir við húsnæðisstofn landsins í fyrra sem er einnig mjög mikil aukning, eða sú mesta sem hefur sést á stöku ári síðan 2008 þegar 3.683 íbúðir bættust við húsnæðisstofn landsins.
Þetta er vísbending um það að framboð nýbygginga sé talsvert og raunar ekki verið meira í áraraðir. Í þessu samhengi er þó vert að nefna að nýbyggingar voru einungis 17% af öllum seldum íbúðum í fjölbýli í fyrra á höfuðborgarsvæðinu og var hlutfallið óbreytt frá fyrra ári, þrátt fyrir umtalsverða aukningu í nýjum íbúðum á markaði.
Það er mikilvægt að hafa þó í huga að gögn um framboð íbúðarhúsnæðis virðast vera misvísandi. Samkvæmt upplýsingum um veltu í byggingariðnaði út frá virðisaukaskattsskýrslum má sjá mun hægari vöxt í greininni, sem er á skjön við gögn um íbúðafjárfestingu.
Það er óhætt að segja að mikil óvissa ríkir um stöðu íbúðamarkaðar um þessar mundir. Misvísandi gögn vekja upp spurningar. Mikið virðist vera byggt án þess að sala aukist. Er verulegt magn af nýjum íbúðum að streyma inn á markaðinn sem seljast illa, eða er um tímatöf í gögnum að ræða? Á meðan upplýsingar um framboð íbúðarhúsnæðis eru óljósar verður erfitt að meta stöðuna með óyggjandi hætti.
Það er þó ekki bara framboðið sem er óljóst heldur eftirspurnin einnig, og hefur sú óvissa aukist í kjölfar útbreiðslu COVID-19 faraldursins. Sú staða gæti komið upp að fólk fresti því að fara á opið hús eða skoða eignir innan um margt annað fólk, í ljósi samkomubanns. Þetta gæti haft þær afleiðingar í för með sér að viðskipti með íbúðarhúsnæði verði færri um stundarsakir, en líkt og þróunin á síðasta ári gaf til kynna virtust sveiflur í fjölda íbúðaviðskipta hafa lítil áhrif á verðmyndun, enda eru ekki alltaf augljós tengsl milli verðþróunar á íbúðamarkaði og fjölda viðskipta.
Stærð eða umfang áhrifanna af þeim aðstæðum sem nú eru uppi í þjóðfélaginu eru mjög óljós á þessari stundu, en húsnæðismarkaður gæti orðið fyrir áhrifum líkt og aðrir markaðir.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Íbúðaverð hækkaði í febrúar, en horfur næstu mánaða óljósar (PDF)