Hagsjá: Fasteignaverð sérbýla á Arnarnesi – miklar breytingar milli 2016 og 2017
Samantekt
Í nýlegri Hagsjá mátti lesa að fermetraverð sérbýla á Arnarnesi hefur sveiflast meira en í öðrum hverfum. Verðið hækkaði t.a.m. um 48,0% milli áranna 2016 og 2017 sem var umtalsvert meiri hækkun en í öðrum hverfum höfuðborgasvæðisins. Breytingin var tæpum 22,2 prósentustigum meiri en hækkunin í Grafarvogi þar sem hækkunin var næst mest, eða 25,8%, og jafnaðist á við 2,3-falda meðalhækkun höfuðborgarsvæðisins. Töluvert minni munur var milli minnstu breytinganna sem voru í miðborginni, 11,2% og Grafarvogs, eða 14,6 prósentustig. Þróunin á Arnarnesi er gott dæmi um hversu mikið húsnæðisverð getur sveiflast á litlum svæðum.
Ef Arnarnes er borið saman við önnur hverfi á höfuðborgarsvæðinu má sjá að það er minnsta hverfið með einungis 13,5 seld sérbýli að meðaltali á ári á árunum 2016-2017. Á sama tíma var meðalfjöldi seldra sérbýla í öllum hverfum á höfuðborgarsvæðinu 74,0 og er því Arnarnesið einungis 18% af meðaltalinu.
Arnarnes hefur einnig þá sérstöðu að meðalstærð sérbýla þar er meiri en í öðrum hverfum. Meðalstærð á Arnarnesi 2016-2017 var 296 m2 sem var 36 fermetrum meira en það hverfi sem kom næst á eftir; Kórar, Hvörf og Þing. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalstærði sérbýla 213 m2 og Arnarnesið því 83 fermetrum yfir því.
Ætla mætti að hluti af skýringunni fyrir miklum breytingum á fermetraverði síðustu ár liggi í því að stærri sérbýli hafi verið seld 2016 sem almennt lækkar fermetraverð. Raunin er önnur, en meðalstærð seldra sérbýla jókst milli áranna 2016 og 2017 og var aukningin mest á höfuðborgarsvæðinu, eða 46 m2. Að sama skapi mætti telja að meðalaldur sérbýla færi lækkandi þegar fermetraverð hækkar. Raunin var einnig önnur á Arnarnesi milli áranna 2016 og 2017. Meðalaldur sérbýlanna 2016 var 34 ár meðan meðalaldurinn var 44 ár árið 2017.
Sveiflurnar í fermetraverði á Arnarnesi skýrast meðal annars af smæð hverfisins. Eftir því sem hverfi er minna hafa einstakar sölur meira vægi. Að sama skapi geta verið meiri sveiflur í fermetraverði eftir því sem fasteignir eru stærri, vegna mismikilla gæða einstakra fasteigna. Því má vænta að árið 2016 hafi sérbýli í verra ástandi selst meðan árið 2017 hafi seldu sérbýlin verið í betra ástandi og því almennt búið yfir meiri gæðum. Telja má að þetta séu helstu ástæður þessara miklu breytingum á fermetraverði milli áranna 2016 og 2017.
Fermetraverð á Arnarnesi fór frá því að vera fjórða ódýrasta hverfið 2016 í að hafa næst hæsta fermetraverðið af 17 hverfum höfuðborgarsvæðisins 2017. Ef þróun fermetraverðs frá 2010 er skoðuð á Arnarnesi má sjá að sveiflurnar undanfarin ár eru ekkert einsdæmi heldur er venjulegt að meiri breytingar séu á fermetraverði milli ára þar en í öðrum hverfum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Fasteignaverð sérbýla á Arnarnesi – miklar breytingar milli 2016 og 2017 (PDF)