Fjögur dýrustu hverfin eru því í Reykjavík og þar á eftir kemur Sjáland í 5. sæti. Seltjarnarnes er í 8. sæti og Lindir í 10. sæti. Af 10 dýrustu hverfunum á höfuðborgarsvæðinu eru því 7 í Reykjavík. Ódýrustu hverfin 2017 voru Vangar og Álfaskeið í Hafnarfirði og Selja- og Húsahverfi í Reykjavík.
Miðborgin var einnig dýrust 2016 , en þá voru Seltjarnarnes og Sjáland í næstu sætum. Þarnæst komu Melar og Hagar og Teigar og Tún. Vangar og Álfaskeið voru einnig ódýrustu hverfin 2016 og þar á eftir komu Hraun í Hafnarfirði og Húsahverfi.
Mesta verðhækkun milli 2016 og 2017 var í Lindahverfi í Kópavogi, eða 28%, sem er um 9 prósentustigum yfir meðalhækkun. Verðið hækkaði síðan um 27% á Vöngum og í Bergum í Hafnarfirði og síðan komu Vogar og Hraunbær. Langminnsta verðhækkunin var á Seltjarnarnesi, eða 4%. Þetta útskýrist væntanlega af því að mikið af dýrum nýjum eignum voru seldar á árunum fyrir 2017 og var slíkum viðskiptum lokið á árinu 2017. Næst minnsta hækkunin var í Grandahverfi, eða 9%, og í Sjálandshverfi, miðborg og Akrahverfi, eða 13%. Árið á undan voru hækkanir langmestar á Seltjarnarnesi og þar á eftir í Selja- og Hólahverfi. Minnstu hækkanirnar þá voru í Húsahverfi, Hraunum og Ökrum.
Miðborgin hefur lengi verið dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu og Vangar og Álfaskeið í Hafnarfirði og Seljahverfi oft verið ódýrust. Sé litið á þróun hæsta og lægsta verðs á svæðinu allt frá árinu 1990 hefur hæsta verð 7,6-faldast og lægsta verð 7,2-faldast. Sé hins vegar litið á þróunina frá aldamótum hefur hæsta verð 3,3-faldast og lægsta verð 2,7-faldast.
Almennt má segja að munur á milli dýrasta og ódýrasta hverfis hafi minnkað eilítið á tímabilinu frá 1990-2000 en síðan aukist mikið frá árinu 2000 fram til 2014. Frá árinu 2014 hefur sú þróun hins vegar snúist við og munur á hæsta og lægsta verði minnkað töluvert á þeim tíma.
Eitt af því sem hefur einkennt þetta tímabil er framboðsskortur sem valdið hefur miklum verðhækkunum. Ætla má að eftirspurnin hafi leitað út til jaðra svæðisins og því valdið auknum verðhækkunum þar. Verðhækkanir hafa því orðið á stærra svæði en gerist þegar meira jafnvægi er á markaðnum. Verð í eftirsóttustu hverfunum var þar að auki orðið mjög hátt, sem aftur vísar eftirspurninni út í ódýrari hverfi, sem þá hækka meira en ella.
Staðan á fasteignamarkaðnum hvað dýrustu og ódýrustu hverfin varðar breyttist því ekki mikið á milli áranna 2016 og 2017. Miðborgin heldur áfram sterkri stöðu sinni sem dýrasta hverfið, þrátt fyrir að verðhækkanir þar séu nú orðnar minni en víða annars staðar.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Fasteignaverð stendur í stað – lækkun á sérbýli (PDF)