Framboð af íbúðum virðist mæta þörf – óvíst með eftirspurn
Við greindum frá því fyrr í vikunni að til þess að viðhalda þörf miðað við stöðuga mannfjöldaaukningu þurfi um 1.700 íbúðir að komast á það byggingarstig að verða fokheldar (stig 4) á ári hverju. Síðustu tvö ár hafa yfir 3.000 íbúðir komist á það stig og voru tæplega 2.600 íbúðir á stigum 1-3 um síðustu áramót, samkvæmt Þjóðskrá. Framboð af íbúðum virðist því vera nokkurt um þessar mundir, sé tekið mið af þörf út frá mannfjölda
Íbúðir sem náðu því stigi að verða fullbúnar (stig 7) í fyrra voru um 3.800 talsins og hafa ekki verið fleiri síðan árið 2007, þegar þær voru tæplega 5.000 samkvæmt Þjóðskrá. Um síðustu áramót voru samtals 4.400 íbúðir í byggingu, óháð byggingarstigi, tæplega 2.800 þeirra í fjölbýli og um 1.600 í sérbýli.
Það eru litlar líkur á að hér myndist skortur á íbúðum miðað við það magn sem er núna í byggingu og þann fjölda íbúða sem þarf til þess að mæta þörf. Hvort verið sé að byggja í takt við eftirspurn, er hins vegar annað mál. Eftirspurn hefur aukist talsvert á síðustu mánuðum og virðist vera meiri á markaði fyrir dýrari eignir og sérbýli ef marka má gögn um hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði. Hversu lengi sú eftirspurn mun vara og þar af leiðandi hvort nauðsynlegt sé að grípa inn í og mæta henni, er hins vegar óvíst.
Skynsamlegast er að byggja í takt við mannfjöldaþróun til langs tíma litið og þörf landsmanna fremur en að bregðast við skammtímasveiflum í eftirspurn. Þá eru mestar líkur á að verðþróun verði stöðug og markaðurinn í jafnvægi.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Framboð af íbúðum virðist mæta þörf – óvíst með eftirspurn