Fjármál ríkissjóðs að taka á sig mynd
Ný ríkisstjórn hefur nú lagt fram tillögu að fjármálastefnu fyrir árin 2022-2026 og frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022. Meginmarkmið fjármálastefnunnar er að skuldasöfnun ríkissjóðs, sem hlutfall af landsframleiðslu, stöðvist eigi síðar en árið 2026. Eins og staðan er nú stefna skuldir hins opinbera í að verða verulega lægri við lok stefnutímabilsins en útlit var fyrir við upphaf heimsfaraldurs kórónuveirunnar og kemur það aðallega til af þróttmikilli viðspyrnu efnahagslífsins og sölu á eignarhlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka.
Gert er ráð fyrir að fjárlagafrumvarpið taki talsverðum breytingum í meðförum Alþingis. T.d. hefur fjármálaráðherra boðað breytingartillögur frá ríkisstjórninni sjálfri í ljósi mikilla breytinga á ráðuneytum í tengslum við stjórnarskiptin.
Viðbrögð stjórnvalda gagnvart efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins hafa skilað góðum árangri og átt ríkan þátt í að stýra hagkerfinu í gegnum einn dýpsta efnahagssamdrátt sögunnar. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að nú fari að draga úr mótvægisráðstöfunum vegna faraldursins og þær verði um 50 ma.kr. á næsta ári. Reiknað er með að stuðningur ríkissjóðs við hagkerfið á árunum 2020–2022 verði samtals um 260 ma.kr.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu mun afkoma ríkissjóðs batna um u.þ.b. 120 ma.kr. milli áranna 2021 og 2022 og verða neikvæð um 169 ma.kr. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri ríkissjóðs næstu árin, allt fram til 2026, en hann verði þó töluvert minni en reiknað var með í gildandi fjármálaáætlun. Það er því ekki verið að boða niðurskurð í frumvarpinu, frekar má segja að stefnt sé að mjúkri lendingu sé litið til áranna fram til 2026.
Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 24% frá fjárlögum 2021 og verði 182 mö.kr. hærri 2022 en í fjárlögum síðasta árs. Heildartekjur ríkissjóðs verða þá 955 ma.kr. á næsta ári. Veruleg aukning tekna af tekjuskatti einstaklinga og tryggingagjaldi skýra bætta stöðu auk þess sem tekjuskattur lögaðila eykst líka.
Veltuskattar skila einnig talsvert meiru og er nú reiknað með að tekjur af sköttum á vöru og þjónustu verði 68 ma.kr. meiri en í fjárlögum ársins 2021. Þá má nefna að gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af arðgreiðslum aukist um 23 ma.kr. sem er tæplega þreföldun.
Heildargjöld ríkissjóðs verða 1.124 ma.kr. samkvæmt frumvarpinu og hækka um 2,2% frá fjárlögum ársins 2021. Framleiðslustyrkir lækka um fjórðung, eða um 19 ma.kr., en félagslegar tilfærslur til heimila verða nær óbreyttar.
Í kjölfar heimsfaraldursins gerðu áætlanir ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs myndi hækka í 30% undir lok ársins 2020 og gildandi fjármálaáætlun gerði ráð fyrir áframhaldandi skuldavexti árin 2021 og 2022, upp í um 42% af VLF. Nú stefnir hins vegar í að skuldastaða ríkisins verði mun betri og að skuldir verði um 200 mö.kr. lægri undir lok árs 2022 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun og nemi um 34% af VLF í stað 42%.