Enduðum árið í 9,6% ársverðbólgu
Mest áhrif til hækkunar milli mánaða höfðu flugfargjöld til útlanda (+19,4% milli mánaða, +0,34% áhrif) og matur og drykkjarvörur (+0,6% milli mánaða, +0,10% áhrif). Mest áhrif til lækkunar hafði bensín (-1,8% milli mánaða, -0,07% áhrif).
Mæling Hagstofunnar var nokkurn veginn í samræmi við væntingar okkar. Við höfðum spáð 0,68% hækkun í verðkönnunarvikunni, en lækkuðum spána í 0,60% í gær eftir að HMS birti vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, en sú mæling var mun lægri en við áttum von á.
Þó verðbólga í heild sé í takt við spá okkar var ýmislegt í tölunum sem kom okkur á óvart. Reiknuð húsaleiga, matarkarfan og húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hækkuðu nokkuð meira en við áttum von á. Verð á nýjum bílum hækkaði hins vegar minna en við áttum von á.
Mismunandi þróun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og utan
Eins og fram kom að ofan hækkaði reiknuð húsaleiga nokkuð meira en við áttum von á, um 0,41% en við spáðum 0,17% hækkun. Reiknuð húsaleiga samanstendur af markaðsverði húsnæðis á landinu öllu ásamt framlagi vaxtabreytinga húsnæðislána. Vaxtaliðurinn var í fullu samræmi við væntingar, en framlag hans var 0,45 prósentustig til hækkunar. Við áttum hins vegar von á að markaðsverð húsnæðis myndi lækka nokkuð meira en mæling Hagstofunnar sýndi, sem skýrir spáskekkjuna. Við gerðum ráð fyrir um 0,3% lækkun en mæling Hagstofunnar var upp á 0,04% lækkun. Það sem skýrir einna helst muninn er að sérbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði minna samkvæmt mælingum Hagstofunnar en gögn HMS bentu til, auk þess sem húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði um 0,6%. Saman varð þetta til þess að mjög lítil lækkun mældist á húsnæðisverði á landinu öllu sem er það sem haft er til grundvallar í útreikningi á reiknaðri húsaleigu.
Matarkarfan hefur á undanförnum þremur mánuðum hækkað nokkuð meira en við höfðum spáð. Þetta bendir til þess að verðhækkanir að utan komi fram með skýrari hætti í verðlaginu nú en á fyrri hluta ársins.
Smávægileg breyting á samsetningu verðbólgunnar
Það varð smávægileg breyting á samsetningu verðbólgunnar milli mánaða. Framlag innfluttra vara (án bensíns) hækkaði um 0,2 prósentustig, eða úr 1,3 prósentustigum í 1,5 prósentustig og framlag þjónustu hækkaði einnig um 0,2 prósentustig, úr 1,9 prósentustigum í 2,1 prósentustig. Árshækkun allra fjögurra kjarnavísitalnanna jókst meira en vísitölunnar í heild. Árshækkun kjarnavísitölu 4 jókst mest, eða 0,6 prósentustig og fór hún í fyrsta sinn yfir 6% á þessu ári. Í kjarnavísitölu 4 er búið að taka út flesta sveiflukennda liði auk áhrifa húsnæðisverðs. Þetta er í samræmi við það að framlag húsnæðisverðs, sem hefur verið einn megindrifkraftur verðbólgu síðasta árs, sé að fjara út enda er húsnæðismarkaður farinn að kólna. Áhrif annarra liða er að aukast og verðbólgan því að verða almennari.
Óbreyttar horfur til næstu þriggja mánaða
Það er ekkert í þessum tölum sem breytir skoðun okkar til næstu mánaða. Við áttum von á að verðbólga myndi hækka milli mánaða í desember og byrja að hjaðna aftur strax í janúar á næsta ári. Við spáum því að verðbólgan verði 9,1% í janúar, 8,6% í febrúar og 7,9% í mars. Spáin fyrir næstu þrjá mánuði er 0,1 prósentustigi hærri en sú sem við birtum fyrr í vikunni, en spá um breytingar milli mánaða er óbreytt. Hækkunin á spánni skýrist einungis af því að desembermælingin var um 0,1 prósentustigi hærri en við höfðum gert ráð fyrir.