Þannig ætti einstaklingur einungis að kaupa peysu á 10 þúsund krónur ef hann metur hana a.m.k. 10 þúsund króna virði, eða hún færir honum ábata sem er a.m.k. 10 þúsund króna virði. Eftir slík kaup er heildareign viðkomandi sú sama og áður, þ.e. í stað þess að eiga 10 þúsund krónur í reiðufé á hann peysu að verðmæti 10 þúsund krónur. Í mörgum tilfellum er ábati peysukaupandans meiri en sem nemur kaupverðinu. Í þeim tilfellum hagnast hann um það sem nemur mismuninum á ábatanum af peysunni og kaupverðinu.
Ef hins vegar frændi þessa sama einstaklings kaupir handa honum peysu á 10 þúsund krónur en peysuþeginn hefði aldrei greitt nema 6 þúsund fyrir peysuna sjálfur, þá eru frændurnir til samans 4 þúsund krónum fátækari fyrir vikið. Þarna hefur orðið sóun á fjármunum eða svokallaður eignabruni.
Jólahald og þau pakkaskipti sem fram fara á hverju ári á milli vina og ættingja, hefur því óhjákvæmilega í för með sér stórfelldan eignabruna af því tagi sem að ofan er lýst.
Óvelkomið hálsbindi kveikir hugmynd
Joel Waldfogel, prófessor í hagfræði og kennari við Wharton-viðskiptaháskólann í Pensylvaníu, fékk hálsbindi í jólagjöf frá móðursystur sinni í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Bindið hitti engan veginn í mark, en það kveikti hjá Joel hugmynd að rannsókn á eignabruna jólanna.
Árið 1993 birtist eftir hann grein í The American Economic Review sem heitir "The Deadweight Cost of Christmas". Greinin var byggð á könnun sem hann gerði meðal nemenda sinna. Hver nemandi tók saman lista yfir allar jólagjafir sem hann hafði fengið, hvað hver gjöf hafði kostað, frá hverjum gjöfin var og tiltók hversu mikils hann sjálfur mat hverja gjöf í dollurum. Niðurstaðan var sú að mat þiggjenda gjafanna var lægra en kaupverðið. Munurinn var minnstur þegar gefandi var líklegur til að þekkja vel til, þ.e. foreldri, maki, systkini eða vinur. Gjafir frá frændum, frænkum, öfum og ömmum voru lægst metnar í hlutfalli við kaupverð.
Waldfogel hefur rannsakað efnið frekar og árið 2009 kom út eftir hann bókin „Scroogenomics: Why You Shouldn't Buy Presents for the Holidays.“ Hann áætlar útfrá rannsóknum sínum að af hverjum 100 dollurum sem varið er til kaupa á jólagjöfum sé verðgildi gjafana í augum þiggjandans einungis að jafnaði 80 dollarar. Hinir 20 dollararnir fara þá í súginn.
Eignabruninn hér á landi 1,1 milljarður króna
Rannsóknasetur verslunarinnar við Háskólann á Bifröst áætlar að hver Íslendingur muni verja 38 þúsund krónum til jólainnkaupa í ár. Ef við gerum ráð fyrir að þessi 38 þúsund skiptist jafnt á milli jólagjafa og annars kostnaðar og að sama hlutfall tapist hér á landi og í Bandaríkjunum, þá verður eignabruninn þessi jól 19 þúsund krónur á hverja fimm manna fjölskyldu. Samanlagt nemur hann þá 1,1 milljarði króna þegar allt er talið.
Nánar upplýsingar
- Gylfi Magnússon skrifaði um halla jólanna í Morgunblaðið 1996.
- Grein Waldfogels í The American Economic Review frá 1993.
- Waldfogel skrifaði líka grein um efnið í Slate 2009.
- Bók Waldfogels "Scroogenomics: Why You Shouldn't Buy Presents for the Holidays" fæst m.a. á Amazon.com.
- Skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar við Háskólann á Bifröst um jólaverslun 2011 má nálgast á heimsíðu þeirra.