Dró úr hagvexti á fjórða ársfjórðungi
Hagvöxtur nam 4,3% á síðasta ári en það er nokkuð minna en við og Seðlabankinn höfðum spáð. Spá okkar frá því í október hljóðaði upp á 5,1% hagvöxt en spá Seðlabankans frá því fyrr í þessum mánuði hljóðaði upp á 4,9%.
Hagvöxturinn á fjórða fjórðungi var nokkuð minni en á öðrum og þriðja fjórðungi þegar hann lá á bilinu 6,6-6,8%. Minni vöxt en þá má skýra með minni vexti útflutnings og fjárfestingar og meiri vexti innflutnings. Framlag útflutnings til hagvaxtar jákvætt um 5,6% á fjórða fjórðungi en það lá á bilinu 8,8-11,4% á öðrum og þriðja fjórðungi. Framlag fjármunamyndunar var jákvætt um 2,9% á fjórða fjórðungi borið saman við á bilinu 3,3-5,1% á öðrum og þriðja fjórðungi. Framlag einkaneyslu reyndist 6,9% sem er mun meira framlag en á öðrum og þriðja fjórðungi.