Bjartsýni eykst meðal landsmanna
Væntingar almennings til atvinnu- og efnahagsástandsins hafa aukist talsvert á síðustu mánuðum, sér í lagi ef horft er til stöðunnar eftir sex mánuði. Væntingavísitala Gallup er byggð á viðhorfi almennings til efnahags- og atvinnuástands og merkja gildi yfir 100 að fleiri séu bjartsýnir en svartsýnir á stöðuna. Í febrúar mældist vísitalan yfir 100 stigum í fyrsta sinn síðan í júlí 2018. Vísitalan samanstendur af mati fólks á núverandi stöðu og væntingum til stöðunnar í framtíðinni. Hátt gildi vísitölunnar nú má helst rekja til þess að væntingar til næstu mánaða mældust miklar.
Væntingar almennings til næstu 6 mánaða hafa haldist nokkuð vel í heldur við bylgjur Covid-19-faraldursins hér á landi. Þær lækkuðu talsvert við upphaf síðasta árs þegar fyrsta bylgjan reið yfir, glæddust síðasta sumar og lækkuðu svo á ný síðastliðið haust. Í nóvember komust þær upp fyrir 100 stig og hafa síðan hækkað nær stöðugt milli mánaða. Væntingar mældust 149 stig í febrúar sem er hæsta gildi sem hefur mælst síðan í maí 2003. Það er því ljóst að landsmenn eru bjartsýnir á að kreppan verði stutt og ástandið batni fljótt. Samkvæmt könnun Gallup ríkir mun meiri bjartsýni í þessari kreppu samanborið við þá síðustu.