Atvinnuleysi minnkar og launaþróun á pari við verðbólgu

Atvinnuleysi mældist 3,0% í maí og fór úr 3,3% í apríl. Það er eðlilegt að atvinnuleysi minnki eftir því sem nær dregur sumri og við búumst við að áfram dragi úr atvinnuleysi í júní og júlí. Árstíðasveiflur skýrast meðal annars af auknum umsvifum ýmissa atvinnugreina á sumrin, ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Það var einmitt í ferðaþjónustu sem atvinnulausum fækkaði mest í mánuðinum, um 16%, og næstmest í byggingariðnaði, um 8%.
Innflytjendur aldrei stærra hlutfall launafólks
Spenna á vinnumarkaði og skortur á starfsfólki hefur kallað á síaukinn aðflutning launafólks hingað til lands. Innflytjendur hafa aldrei verið stærri hluti þeirra sem starfa á íslenskum vinnumarkaði, en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var hlutfallið 22%. Til samanburðar var það 19% þegar mest lét fyrir faraldurinn.
Hlutfall innflytjenda er mest í greinum tengdum ferðaþjónustu, þá sérstaklega í rekstri gististaða, þar sem það er 67%. Í fiskiðnaði er hlutfall innflytjenda 58% og í matvæla- og drykkjariðnaði 49%.
Eftirspurn eftir vinnuafli er enn mikil, þótt almennt hafi dregið örlítið úr henni á allra síðustu mánuðum. Það eru helst stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu og byggingariðnaði sem sjá fyrir sér að fjölga starfsfólki á næstu mánuðum, samkvæmt könnun sem Gallup gerir reglulega fyrir Seðlabankann. Nýjustu gögn eru frá marsmánuði og samkvæmt þeim vildu 55% stjórnenda fyrirtækja í byggingariðnaði fjölga starfsfólki og 60% stjórnenda í ferðaþjónustu, samgöngum og flutningum.
Áfram má búast við að launavísitalan hækki lítillega í maí og júní, enda teygðust kjaraviðræður félaga í BSRB fram í júnímánuð. Jafnvel má gera ráð fyrir lítilsháttar hækkunum í júlí vegna spennu á vinnumarkaði og við það myndi tólf mánaða hækkun launa aukast lítillega, enda lækkaði vísitalan örlítið í júní og júlí í fyrra.
Kaupmáttur stendur í stað
Verðbólgan hefur haldið áfram að éta upp launahækkanir, sem sést á því hversu stöðugur kaupmáttur launa hefur haldist þrátt fyrir að laun hafi hækkað um 9,5% á síðustu tólf mánuðum. Launahækkanirnar þýða þannig ekki að launafólk geti keypt 9,5% meira fyrir launin sín en fyrir ári síðan. Í apríl hafði verðlag hækkað örlítið meira en launastigið á tólf mánuðum, um 9,9%, og kaupmáttur launa því dregist saman um 0,4%.
Verðbólgan var í upphafi ekki síst drifin áfram af húsnæðisverðshækkunum. Brattar vaxtalækkanir í faraldrinum greiddu fyrir aðgengi að lánsfé, eftirspurn eftir húsnæði til kaupa tók hratt við sér og verðið rauk upp. Vaxtalækkanir höfðu þó ekki aðeins áhrif á húsnæðismarkað heldur ýttu einnig almennt undir innlenda eftirspurn og sköpuðu verðbólguþrýsting, sem þá þegar hafði látið á sér kræla, meðal annars vegna gengislækkunar í faraldrinum og innfluttrar verðbólgu.
Í mikilli verðbólgu er viðbúið að launafólk krefjist meiri launahækkana en ella, til að viðhalda kaupmætti. Þegar síðustu kjaraviðræður fóru af stað var verðbólga komin upp í tæp tíu prósent og á sama tíma var mikil spenna á vinnumarkaði, atvinnuleysi lítið og skortur á vinnuafli, sem almennt bætir samningsstöðu launafólks. Launahækkanir síðustu mánaða hafa án efa kynt undir og viðhaldið verðbólgunni - hærri laun hafa ýtt undir kröftuga innlenda eftirspurn sem gerir fyrirtækjum kleift að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag.
Nú styttist óðum í næstu kjaraviðræður og eftir því sem verðbólgan verður þrálátari eykst hættan á því að víxlverkun launa og verðlags þyngi baráttuna gegn verðbólgu. Þegar verðlag hefur hækkað vill launafólk hærri laun og með hærri launakostnaði vilja fyrirtæki hærra verð fyrir vörur og þjónustu.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








