Atvinnuleysi minnkaði um 0,5% í september og er nú svipað og fyrir faraldur
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í september 5,0% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 5,5% frá því í ágúst. 10.428 manns voru á atvinnuleysisskrá í lok september og fækkaði um 1.071 í september. Almennt skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar 2021 þegar það var 11,6% og hefur þannig minnkað um 6,6 prósentustig síðan þá. Í september 2020 var almennt atvinnuleysi 9% og það hefur því minnkað um 4 prósentustig á einu ári.
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði svipað í októbermánuði og var í september.
Atvinnuleysi hefur nú minnkað átta mánuði í röð og hefur lækkunin verið nokkuð hröð síðustu mánuði. Atvinnuleysið var einnig í kringum 5% í upphafi árs 2020 og því er staðan orðin svipuð nú og var áður en faraldurinn skall á.
Alls hefur verið ráðið í um tæplega 5.400 störf með ráðningarstyrkjum á tímabilinu frá mars til september 2021 og er það líklega ein veigamesta ástæðan fyrir minnkun atvinnuleysis. Í september byrjuðu þessir ráðningarstyrkir að renna út og skiptir miklu hvort fólk á ráðningarstyrkjum heldur ráðningum sínum eða hvort þær taki enda. Almennt hefur verið góð reynsla af ráðningarstyrkjum í gegnum árin, en aðstæður nú eru töluvert öðruvísi en verið hefur. Það skiptir auðvitað máli fyrir áframhaldandi þróun atvinnuástands að fólk á ráðningarstyrkjum haldi störfum sínum. Á síðustu þremur mánuðum nemur fjöldi þeirra sem farið hefur af atvinnuleysisskrá með ráðningarstyrkjum numið 4-5% af fjölda atvinnulausra í lok mánaðar. Þetta hlutfall fór hæst í 9,5% í júní.
Almennt atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu nema á Vestfjörðum milli ágúst og september. Mest dró úr atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu, um 0,7 prósentustig, og svo um 0,6 prósentustig á Suðurnesjum. Atvinnuleysi er eftir sem áður langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, og hefur það nú verið undir 10% á Suðurnesjum í tvo mánuði, en hæst fór það í 24,5% í janúar 2021. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum var þó enn yfir 10% í september, var 10,2%.
Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 432 í september og konum um 639. Atvinnuleysi kvenna minnkaði því töluvert meira en karla í september.
Atvinnuleysi í september var komið á sama stað og var í janúar 2020 áður en faraldurinn skall á. Staðan er þó að mörgu leyti öðruvísi og óviss. Góður árangur í baráttunni við atvinnuleysið hefur ekki hvað síst náðst með mikilli notkun ráðningarstyrkja, þannig hefur verið ráðið í tæplega 5.400 störf með ráðningarstyrkjum frá því í mars. Miklu máli skiptir að ráðningarsambönd á grundvelli þessara styrkja haldi. Eins og áður skiptir opnun landamæra, og auknir möguleikar í komum erlendra ferðamanna miklu þar sem töluvert er enn í land með að ferðaþjónustan nái sínum fyrri styrk.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi minnkaði um 0,5% í september og er nú svipað og fyrir faraldur