Atvinnuleysi minnkaði lítillega milli mánaða í febrúar
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var almennt skráð atvinnuleysi í febrúar 11,4% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 11,6% frá því í janúar. Um 25.700 manns voru á atvinnuleysisskrá í febrúar, þar af um 21.400 atvinnulausir og um 4.300 atvinnulausir í minnkuðu starfshlutfalli. Atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleið var 1,1% og minnkaði einnig milli mánaða. Heildaratvinnuleysi í febrúar var því 12,5% samanborið við 12,8% í janúar og minnkaði þannig um 0,3 prósentustig.
Vinnumálastofnun spáir því að áfram dragi úr almennu atvinnuleysi í mars og að það verði á bilinu 10,9% til 11,3%. Er því líklegt að hámarkinu hafi verið náð. Atvinnuleysið var hins vegar 5% í janúar 2020 og því langt í land þar til svipuðu atvinnuleysisstigi verði aftur náð.
Almennt atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu í febrúar nema á Austurlandi, þar sem það var óbreytt. Minnkunin var mest á Norðurlandi eystra, um 0,6 prósentustig.
Á síðustu árum hefur atvinnuleysi kynjanna þróast með svipuðum hætti sé litið á landið allt. Í fyrra var meðalatvinnuleysi bæði karla og kvenna 7,9%, en árin tvö þar á undan var atvinnuleysi kvenna 0,2-0,3 prósentustigum hærra en hjá körlum. Fyrstu tvo mánuði ársins 2021 hefur atvinnuleysi karla verið 12,2% á meðan það var 11,8% meðal kvenna, þannig að munur á atvinnuleysi kynjanna kann að vera að aukast samhliða því sem atvinnuleysi minnkar.
Atvinnuleysi karla var meira en meðal kvenna í febrúar alls staðar nema á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi eystra. Atvinnuleysi kvenna var 30% meira en karla, bæði á Austurlandi og Vesturlandi, þar sem munurinn var mestur. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum var 22% meira en meðal karla á svæðinu. Atvinnuleysi meðal kvenna þar var hins vegar 28,5% og hefur aldrei verið hærra. Atvinnuleysi meðal kvenna á Suðurnesjum jókst úr 27,3% í janúar. Þessar tölur eru þær hæstu sem sést hafa um atvinnuleysi hér á landi.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi minnkaði lítillega milli mánaða í febrúar