Atvinnuleysi jókst minna í janúar en reikna mátti með
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var almennt skráð atvinnuleysi í janúar 11,6% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði aukist úr 10,7% frá því í desember. Um 26.400 manns voru á atvinnuleysisskrá í janúar, þar af um 21.800 atvinnulausir og um 4.600 atvinnulausir í minnkuðu starfshlutfalli.
Atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleið var 1,2% og minnkaði milli mánaða. Heildaratvinnuleysi í janúar var því 12,8% samanborið við 12,1% í desember og jókst þannig um 0,7 prósentustig.
Almennt er reiknað með að atvinnuleysi minnki þegar líður á árið 2021 en sú þróun er auðvitað háð hraða bólusetninga og að tök náist á faraldrinum þannig að landið opnist meira. Okkar möguleikar í því sambandi eru reyndar líka mjög háðir hvernig sama barátta gengur í helstu viðskiptalöndum okkar.
Atvinnuleysi jókst alls staðar á landinu í janúar nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem það var óbreytt. Almennt atvinnuleysi á Suðurnesjum var 24,5% í janúar og hlutabótaatvinnuleysi 1,5%, samtals 26%. Almennt atvinnuleysi þar er því rúmlega tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það var næst mest, eða um 11,1%.
Á árinu 2000 var fólk með grunnskólamenntun 70% af fjölda á atvinnuleysisskrá. Þá var fólk með háskólamenntun einungis um 7% atvinnulausra. Á þeim 20 árum sem hafa liðið síðan hefur háskólamenntuðu fólki fjölgað mikið og að sama skapi hafa háskólamenntaðir orðið meira áberandi meðal atvinnulausra.
Á þessum 20 árum hefur hlutfall fólks með grunnskólapróf af atvinnulausum farið stöðugt minnkandi og var það 41% á árinu 2020. Að sama skapi hefur hlutfall háskólamenntaðra aukist mikið og var 26% á síðasta ári. Sé litið á þessa tvo hópa, atvinnulaust fólk með grunnskólapróf og háskólapróf með tilliti til kynja má sjá að mesta breytingin er meðal kvenna. Á árinu 2000 voru konur með grunnskólapróf 67% atvinnulausra kvenna og konur með háskólapróf 7%. Á síðustu 20 árum hafa þessir tveir hópar þróast með algerlega gagnstæðum hætti. Hlutfall kvenna með grunnskólapróf af atvinnulausum konum hefur farið sífellt minnkandi og hlutfall háskólamenntaðra kvenna sífellt aukist. Í fyrra voru atvinnulausar konur með grunnskólamenntun 37% atvinnulausra kvenna og konur með háskólamenntun 33%.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi jókst minna í janúar en reikna mátti með